148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:24]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Það ætti kannski ekki að koma á óvart að ég styð þetta mál verandi einn af flutningsmönnum þess. Mig langaði að taka aðeins þátt í umræðunni því að ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægt mál og snerti marga þætti af því sem við höfum komið inn á, bæði hér í dag og sem eru ofarlega á baugi í umræðunni þessa dagana, þ.e. lýðræðismálin. Ég hef verið róttækur mjög í þessum efnum og hef stundum velt því fyrir mér hvort það eigi yfir höfuð að vera takmörkun á kosningaaldri. Ég ætla kannski ekki að leggja fram tillögur þess efnis akkúrat núna, en allir borgarar þessa lands hafa eina rödd. Það að setja mark einhvers staðar útilokar alltaf ákveðinn hluta þeirra. Ég ætla ekki að flytja breytingartillögu þess efnis en kasta þessu aðeins fram í umræðuna því takmörkun á kosningaaldri þýðir að það er alltaf verið að útiloka einhverja.

Þetta mál hefur komið fram áður eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á. Það hafa heyrst ýmsar raddir hvað þetta varðar og hér hefur verið komið inn á ýmislegt. Sumir hafa spurt af hverju eigi að gera þetta fyrir sveitarstjórnarkosningar. Er verið að nota sveitarstjórnarkosningar sem eitthvert tilraunaeldhús fyrir það sem koma skal? Ég lít á það akkúrat öfugt, það sé í raun og veru heiður fyrir þær kosningar og það stjórnsýslustig að fá að draga vagninn í þessu og eins og hér hefur verið komið inn þá þarf mun meiri breytingar til ef á að fara með þessa breytingu inn í alþingiskosningar sem ég held að verði raunin. Ég held við séum í raun og veru að stíga skrefið hérna á leið sem við höfum alltaf fetað, hvenær sem það verður, vonandi í næstu alþingiskosningum.

Eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á það hafa menn velt ýmsu fyrir sér og raddir heyrst um það hvort 16 ára unglingar hafi burði til að kjósa. Ég fullyrði það, ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá og reyndar árinu eldri í dag en í gær, það vill svo til að ég á afmæli í dag. (Gripið fram í: Til hamingju.) Takk. Ég er 45 ára gamall og talaði við fólk í kosningabaráttunni, sem myndi fá kosningarrétt yrði þessi tillaga að veruleika, sem eru mér mun fremra í mörgum málum, ef ekki öllum. Þannig að ég gef lítið fyrir það að það gerist eitthvað við 18 ára aldurinn þannig að þá verði maður allt í einu nógu þroskaður til að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi.

Ég held þetta sé gott mál, þarft skref inn í þá umræðu sem við munum vonandi taka þátt í öll saman um áframhaldandi þróun lýðræðisins.