148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:32]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka fyrir hreint ágæta umræðu um málið. Ef mér reiknast rétt til hafa þrír hv. þingmenn bæst í hóp stuðningsmanna í ræðum hér umfram þá fjölmörgu sem eru flutningsmenn málsins. Þótt umræðan hafi yfir það heila verið jákvæð höfum við hreyft við mörgum álitamálum, sem er einmitt það góða við þetta. Það eru álitamál um allt sem snertir þá flóknu vél sem lýðræðið er. Það er ekki sjálfsagt mál að lýðræði sé til yfir höfuð eða einhver hafi kosningarétt, rétt eins og það var einu sinni ekki sjálfsagt mál að konur eða fólk undir þrítugu væri með kosningarétt.

Fyrir rétt um 100 árum var þriðjungur Íslendinga með kosningarétt. Það voru um 3/4 Íslendinga sem höfðu kosningarétt síðast. Þessi skali er alltaf að hreyfast til. Eins og hv. þingmaður og afmælisbarn, Kolbeinn Óttarsson Proppé, nefndi í máli sínu eru þetta bara mörk sem við drögum einhvers staðar, það að fólk sé börn til 18 ára aldurs, það að við fáum bílpróf 17 ára. Þetta eru allt mannasetningar sem við setjum og getum breytt.

Það þarf að skoðast í nefndinni hvaða áhrif eru af þessum breytingum, hvort þurfi t.d. að skoða kjörgengi til sveitarstjórna, hvort þurfi að vera með ólíkan aldur á kosningarétti og kjörgengi til sveitarstjórna þar sem sveitarstjórnarmenn þurfa að vera lögráða samkvæmt gildandi lögum. Það myndi flækja kerfið enn, en þá vil ég minna á að 18 ára getum við kosið forseta sem aldrei má vera yngri en 35 ára. Sú skekkja í kerfinu er eitt af því sem gerir hana að því lífræna kerfi sem lýðræðið á að vera.

Að lokum vil ég biðja forseta að forláta mér mistök sem mér urðu á í flutningsræðu þar sem ég bað um að málinu yrði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar, sem var gert síðasta vor. Nú segir mér fróðara fólk að málið eigi að fara til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég fer þess góðfúslega á leit við forseta að hann verði við þeirri breytingu minni og þar með fái afmælisbarnið, hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, verandi nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þetta ágæta mál í afmælisgjöf.