148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

fjármálafyrirtæki.

46. mál
[18:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Í þessu frumvarpi er lögð til framlenging á gildistíma bráðabirgðaákvæðis við lögin, en ákvæðið fellur að öðrum kosti úr gildi hinn 31. desember næstkomandi. Lagt er til í frumvarpinu að gildistími ákvæðisins verði framlengdur til 31. desember 2020. Þetta bráðabirgðaákvæði veitir Fjármálaeftirlitinu heimildir til inngripa í rekstur fjármálafyrirtækja við ákveðnar aðkallandi aðstæður. Heimildirnar hafa þann tilgang að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði ef þörf er á vegna fjárhagserfiðleika og/eða rekstrarerfiðleika fjármálafyrirtækja. Helstu heimildir ákvæðisins felast í því að Fjármálaeftirlitið getur í fyrsta lagi boðað til hluthafafundar og fundar stofnfjáreigenda og krafist þess að tiltekin mál verði tekin til umræðu og ákvörðunar og í öðru lagi tekið yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda og tekið nauðsynlegar ákvarðanir, þar á meðal um takmörkun á ákvörðunarvaldi stjórnar, brottvikningu stjórnar að hluta eða í heild, yfirtöku eigna, réttinda eða skyldna fjármálafyrirtækis, sölu eigna fjármálafyrirtækis eða samruna þess við annað fyrirtæki.

Þetta ákvæði hefur verið í lögum um fjármálafyrirtæki frá gildistöku neyðarlaganna og sem ákvæði til bráðabirgða frá árinu 2009. Engar efnislegar breytingar hafa verið gerðar á ákvæðinu frá þeim tíma, en gildistími þess hefur verið framlengdur fimm sinnum. Heimildum ákvæðisins var síðast beitt í mars 2015 þegar Sparisjóður Vestmannaeyja ses. var sameinaður Landsbankanum hf. með yfirtöku eigna og skulda. Lög sem innleiða tilskipun Evrópusambandsins um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja koma til með að leysa af hólmi það ákvæði sem er til umfjöllunar í frumvarpinu. Gengið er út frá því að innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt verði að fullu lokið á árinu 2020 og því verði ekki þörf á að framlengja gildistíma ákvæðisins frekar en lagt er til í frumvarpi þessu.

Virðulegur forseti. Verði frumvarp þetta að lögum verður tryggt að Fjármálaeftirlitið hafi enn heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana gagnvart fjármálafyrirtækjum ef nauðsyn krefur í þeim tilgangi að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við Fjármálaeftirlitið, Seðlabanka Íslands og Samtök fjármálafyrirtækja og er það mat þeirra allra að rétt sé að hafa þetta ákvæði í lögum til öryggis þrátt fyrir að heimildum þess hafi ekki verið beitt undanfarin tvö ár. Segja má að það sé allt annað og betra ástand á fjármálamarkaði en þegar ákvæðið kom í lög og sömuleiðis þegar teknar voru ákvarðanir um tímabundna framlengingu á undanförnum árum. Þess vegna er ekkert aðkallandi að lagaheimildin sé til staðar en þannig er með þessi mál að maður veit aldrei fyrir fram hvað getur komið upp á. Ég þori samt sem áður að fullyrða hér að við erum í allt annarri stöðu en átti við fyrir nokkrum árum hvað þessi efni snertir almennt, um stöðu fjármálafyrirtækja í landinu.

Það var ástæða til þess að vega og meta hvort framlengja ætti ákvæðið. Ég held að rétt hafi verið að gera það. Það samráð sem ég hef hér vísað til átti að hjálpa til við það mat. Það var nokkuð einróma að menn töldu rétt að ákvæðið skyldi lifa. Ég er þeirrar skoðunar að gild rök séu fyrir því. Þess vegna er þetta frumvarp lagt fram og lagt til að við framlengjum gildistíma ákvæðisins sem eins konar varúðarráðstöfun.

Eins og hér hefur verið rakið er síðan gert ráð fyrir því að þegar við tökum upp og innleiðum tilskipun Evrópusambandsins um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja muni heimildir sem líkjast þessum verða lögfestar hér á landi sem fær mann aftur til þess að hugsa um það að neyðarlögin á sínum tíma voru mörgum öðrum þjóðum fyrirmynd og ýmsar ákvarðanir sem íslensk stjórnvöld tóku á grundvelli neyðarlaganna hafa reynst fyrirmynd fyrir regluverk Evrópusambandsins í framhaldinu, t.d. um það hversu ríkar heimildir stjórnvöld koma til með að hafa samkvæmt nýja regluverkinu til að stíga inn í fjármálafyrirtæki og hvaða reglur eiga að gilda um virði eigna o.s.frv., sömuleiðis um forgang innstæðna að eignum banka og fjármálafyrirtækja sem er fyrirbæri sem reyndist nokkuð umdeilt þegar við Íslendingar leiddum það í lög og má segja að sé með sínum hætti upphafið að ágreiningnum um Icesave-málin öll. Þetta er nú orðið að meginreglu í því regluverki sem hefur verið að fæðast í Evrópusambandinu á undanförnum árum.

Ég legg, virðulegi forseti, til að þessu frumvarpi verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.