148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er mikil ánægja að þingstörfin eru komin í eðlilegan farveg eftir að allt þetta ár hefur verið eins og reiðileysistúr á togara, ekkert að gera og dagarnir lengi að líða. Ég vona að við lendum ekki í því á næstunni enda hyggst ríkisstjórnin standa þá 48 mánaða vakt sem hún hefur tekið að sér. Mér finnst ástæða til að endurtaka óskir mínar til nýrra þingmanna og okkar allra, bjóða þá velkomna til þings. Ég hlakka til samstarfsins við þá, nákvæmlega eins og ég er fullur tilhlökkunar fyrir samstarfi við þá félaga mína í ríkisstjórnarsamstarfinu. Það eru miklar væntingar gerðar til ríkisstjórnarinnar og loforðin eru mikil sem við ætlum að standa við.

Væntingarnar snúa að því að við stöndum við öll loforð við fyrstu fjárlögin sem eru gerð í miklum flýti og á miklum hraða. Þetta eru fordæmalausir tímar. Ég held að við verðum að gefa öllum tækifæri til að setjast í stólana, koma þessu af stað og framtíðin mun bera það í skauti sér að við ætlum okkur að standa við þau fyrirheit og þau loforð sem við höfum gefið. Ég held að það sé mikilvægt að við öll í þessum sal stöndum saman um þau góðu mál sem koma fram í þinginu, hvort sem þau koma frá minni hluta eða meiri hluta. Ég held að það sé líka mikilvægt.

Mér finnst mjög ánægjulegt að við getum staðið við það núna í þessum fyrstu fjárlögum að eldri borgarar fái þær kröfur uppfylltar sem voru þeirra aðalkröfur fyrir kosningar, að lægstu bætur einstaklinga verði 300 þús. kr. og að frítekjumark launatekna verði 100 þús. kr. Það er von mín að friður og eindrægni muni ríkja með okkur öllum í þessum sal á komandi tímum og ég óska okkur öllum gleðilegra jóla.


Tengd mál