148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Við erum núna að berjast við að koma fjárlögum saman, eins og okkur ber skylda til. Við ætlum, að mér sýnist, að ákveða að auka hér útgjöld ríkisins um a.m.k. 54 milljarða ef við horfum fram hjá fjármagnskostnaði, frá því sem áætlun hljóðar upp á að verði útkoman á þessu ári. Mér skilst að í fjárlaganefnd liggi jafnvel fyrir tillögur um enn frekari aukningu. Af því tilefni langar mig til að vekja athygli á fróðlegu viðtali sem Kristján Kristjánsson átti við dr. Ásgeir Jónsson, dósent og deildarforseta hagfræðideildar Háskóla Íslands, á Sprengisandi sl. sunnudag. Ég hygg að það væri ágætt að menn gæfu sér tíma í önnum til að hlusta aðeins á það sem Ásgeir Jónsson hafði fram að færa. Með leyfi forseta vil ég vitna orðrétt í Ásgeir:

„Það sem maður hefur aðallega áhyggjur af í umræðunni er að það virðist — eins og stjórnarandstaðan talar á þinginu — að hún átti sig ekki á hvernig ríkisfjármál virka. Að það þurfi að eyða meiri peningum. Ef við förum að þenja út ríkissjóð á þessum tímapunkti í hagsveiflunni, þá erum við að fá þenslu, vaxtahækkanir frá Seðlabankanum og verðbólgu. Það skiptir mjög miklu máli að ríkið vinni á móti hagsveiflunni.“

Hann segir einnig orðrétt, með leyfi forseta:

„Það sem er alltaf talað um er hvað við eyðum miklum peningum í heilbrigðismál. Það er ömurlegur mælikvarði, vegna (Forseti hringir.) þess að það eru til lönd sem eyða miklum peningum í sín heilbrigðiskerfi, (Forseti hringir.) eins og Bandaríkin, en eru samt með ömurlegt kerfi.“


Efnisorð er vísa í ræðuna