148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við erum í miðri umræðu um fjárlög fyrir árið 2018, fyrstu fjárlög ríkisstjórnar sem hafði uppi fögur fyrirheit. Í aðdraganda kosninga lofuðu þessi flokkar sem að ríkisstjórn standa umskiptum. Forgang hefðu þeir sem stæðu höllum fæti í samfélaginu, byggju jafnvel við fátækt. Öryrkjar, barnafjölskyldur, aldraðir. Í samkomulagi flokkanna var flugeldum skotið á loft, stórsókn skyldi hafin og allt undir — heilbrigðisþjónustan, bætt samgöngumannvirki, betri skólar, meiri hamingja.

En hvað hefur gerst? Ekkert. Það hefur ekkert gerst annað en að vindurinn virðist allur úr blöðrunni. Það er ekkert að gerast, kjósendur hafa enn einu sinni verið sviknir, þeir keyptu köttinn í sekknum.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar og svör eru efnislega þau að góðir hlutir gerist hægt og að gæta verði að þenslu í hagkerfinu. Þetta segja þeir við fjölskyldurnar sem enn eru skildar eftir og eiga erfitt með að búa börnum sínum öruggt félagslegt atlæti. Þessu beina þeir til öryrkjanna sem fastir eru í gildru og fyrirmunað að tryggja daglega framfærslu og kerfið lamar áfram alla viðleitni til eigin tekjuöflunar.

Undir sömu sök eru aldraðir seldir þótt frítekjumark atvinnutekna eigi að hækka nú upp í 100 þús. kr. sem er heldur ekki í samræmi við það sem lofað var og nær aðeins til lítils hluta, þ.e. 13% eldri borgara. Lágmark væri að þetta frítekjumark gilti um allar tekjur og jafnræðis þar með gætt.

Örvænting ríkir meðal ábyrgðarfólks í heilbrigðisþjónustu, á Landspítala jafnt sem á landsbyggðinni. Þar blasir við óbreytt undanhald, fátæklegri þjónusta. Skólakerfið er á milli vonar og ótta og enn mega íbúar á Vestfjörðum búast við því að afurðir komist ekki á markað þar sem flutningabílar eru afvelta utan vegar þegar vegir eru ófærir vegna aurbleytu.

Herra forseti. Hún er komin, ögurstundin. Enn á hæstv. ríkisstjórn möguleika á að bæta úr og standa við stóru orðin (Forseti hringir.) og héðan fylgir áskorun um það. Menn eiga að standa við það sem lofað er.


Efnisorð er vísa í ræðuna