148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur í upphafi þings nefndi ég mikilvægustu fyrstu prófin sem þessi ríkisstjórn stæði frammi fyrir. Eitt skulum við nefna strax, það hafa tveir ráðherrar fallið á fyrsta prófinu sem er lögbrot dómsmálaráðherra við skipan dómara í Landsrétt, mjög mikilvægt próf. Dómsmálaráðherra er dæmdur í Hæstarétti fyrir að brjóta lög við skipan dómara. Hún segir: Nei, að sjálfsögðu ætla ég ekki að víkja.

Svo er það Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem ber ábyrgð á ráðherranum, sem segir að hún muni ekki kalla eftir slíku.

Þetta er fall. Þetta er fall fyrir ríkisstjórnina, eða þessa ráðherra, og þetta er klárlega fall fyrir réttarkerfi landsins.

Tvö: Það er lágmark þegar kemur að heilbrigðismálum að tryggja að heilbrigðisstofnanir hafi það rekstrarfé sem þær þurfa. Nú stöndum við frammi fyrir því með frumvarpið eins og það er lagt fram af ríkisstjórninni, eða fjármálaráðherra, að Landspítalinn segir að það vanti 625 milljónir í rekstrarfé til að geta haldið sjó. Heilbrigðisráðherra hefur ekki fallið enn. Það eru miklar væntingar til Svandísar Svavarsdóttur, hæstv. heilbrigðisráðherra, í þessu máli. Það eru miklar væntingar til ríkisstjórnar Vinstri grænna í málinu. Ég vona að þau falli ekki á prófinu.

Svo kemur að kjaramálum. Þar er heldur ekki komið fall en það eru vísbendingar um hvert einkunnin stefnir. Hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir segir að sett hafi verið í lögin fyrir ári síðan að kjaraþróun ráðamanna skyldi fylgja almennri launaþróun. Nei, það var ekki sett inn í lögin þá. Ef forsætisráðherra er ekki meðvitaður um það eru það mjög slæm skilaboð. Allir á vinnumarkaði, öll heildarsamtökin á vinnumarkaði, eru meðvituð um það. Kannski var þetta misskilningur hjá ráðherra, illa orðað eða eitthvað, en það er ekki góðs viti, sér í lagi þegar ráðherra segir líka að hún ætli ekki að grípa inn í of miklar hækkanir, umfram það sem lög leyfa, á ráðamenn. (Forseti hringir.) Aftur: Einkunnin er ekki fall en við skulum segja að miðsvetrareinkunn líti ekki vel út.


Efnisorð er vísa í ræðuna