148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[11:20]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir prýðilega ræðu. Vegna naums tíma ætla ég bara að drepa á tvö til þrjú atriði.

Fyrst vil ég segja að í gær eða fyrradag flutti Samfylkingin þingsályktunartillögu um byggingu fimm þúsund leiguíbúða og hvet þingmenn til að kynna sér það mál. Það er mál í baráttunni gegn fátækt. Húsnæðismál eru eilífðarmál og þurfa alltaf að vera í brennidepli. Eins mikilvægt og það er að við horfum og tökumst á við bráðaaðgerðir þurfum við líka að horfa langt fram í tímann. Öruggt húsnæði er ein af grunnþörfum mannsins. Það er mikilvægt að allir hafi ráð á því. En við þurfum líka að sýna skynsemi og slíkar framkvæmdir eiga auðvitað líka að snúast um ábyrga afstöðu í umhverfismálum.

Í fyrsta lagi búum við hérna við gríðarlega hátt vaxtastig og verðtryggingu sem fylgir lítilli örmynt. Þetta er risavandamál flestra kaupenda og húseigenda. Hafi einhver flokkur hér inni trúverðuga leið til að lækka vexti, afnema verðtryggingu og auka stöðugleika með íslenskri krónu, þá er ágætt að fara að fá þau áform, vegna þess að þau hafa ekki birst hingað til. Eina ábyrga afstaðan er að skoða hagkvæmni þess að taka upp nýrri og sterkari mynt og gjarnan að ganga í Evrópusambandið í leiðinni.

Í öðru lagi er mannvirkjagerð ábyrg fyrir 30% af kolefnislosun í heiminum. Við verðum að takast á við það vandamál. Það er ekki bara spurning um smekk eða frelsi fólks hvernig á að byggja, hvernig innviðir eigi að vera. Það er umhverfissóðaskapur að vera með gisna byggð, að byggja stærra en við þurfum. En til þess að geta ráðist í slíkar framfarir og úrbætur þurfum við að leggja miklu, miklu meiri peninga í nýsköpun og byggingarrannsóknir. Við þurfum byggja minna. Við þurfum að byggja þéttar og við þurfum að byggja þannig að við (Forseti hringir.) sköðum ekki umhverfið að óþörfu.