148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[11:30]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Langflestir eru sammála um að skortur á íbúðum er orðinn að krísuástandi á Íslandi. Enginn virðist geta varpað fullkomnu ljósi á hversu mörgum íbúðum þurfi að bæta við til að uppfylla eftirspurnina og er það vandamál í sjálfu sér, en talan er einhvers staðar á bilinu 1.500–9.000, eftir því hver er spurður. Þess má geta að í kjölfar Vestmannaeyjagoss voru um 2,5% þjóðarinnar á vergangi. Þá þótti neyðin svo mikil að reist voru 546 einbýlishús og 46 íbúðir af Viðlagasjóði til að flýta fyrir því að koma íbúum Vestmannaeyja í öruggt skjól. 2,5% þjóðarinnar í dag eru um 8.000 manns. Telja má næsta víst að þó nokkuð fleiri en það séu nú á hrakhólum, annaðhvort hjá vinum eða vandamönnum, í allt of litlu húsnæði eða í ónýtu húsnæði.

Aukinn stuðningur við málaflokkinn á meðan á þeirri krísu stendur er enginn. Neyðarástand á húsnæðismarkaði varð ekki til á einni nóttu og er því ekki merkilegt. Neyðarástand er komið til vegna mannanna verka, neyðarástandið er bara vandamál þeirra sem hvergi geta höfði hallað. Þetta eru skilaboðin sem ríkisstjórn Íslands sendir þeim sem hrekjast á milli ótraustra leigusala og geta ekki búið börnum sínum öruggt heimili.

Forseti. Nú erum við að ræða neyðarástand á húsnæðismarkaði undir liðnum sérstakar umræður og vona ég að þetta samtal haldi áfram í umræðum um fjárlögin. Við Píratar munum leggja fram breytingartillögu þess efnis að málaflokkurinn fái nauðsynlega innspýtingu fjármagns en kollegi minn, Smári McCarthy, mun fara betur yfir þær aðgerðir sem við þurfum nauðsynlega að fara í fyrir þennan málaflokk.