148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[11:45]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er búið að ræða þetta nokkuð vel hér. Margir hv. þingmenn hafa komið með mjög góða greiningu og margar góðar tillögur. Við vitum hvað vantar. Það vantar langtímahúsnæðisstefnu stjórnvalda, vantar kæruleið við alþjóðasamninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Það vantar að forgangsraða húsnæðisstuðningi til þeirra hópa sem mest þurfa, vantar að samræma húsnæðisáætlanir og heimildir til eftirfylgni. Það vantar að lögfesta heimildir til að afla gagna frá stofnunum um húsnæðismarkað, vantar að hækka viðbótarstofnframlög í húsnæðisbyggingar vegna markaðsbrests og auka aðgengi að lánsfé til landsbyggðar til nýbygginga. Það vantar að auka stofnframlög til uppbyggingar almennra leiguíbúða vegna ófremdarástandsins á leigumarkaði. Það vantar að auka möguleika þess hóps sem kemst ekki inn á fasteignamarkaðinn vegna skorts á eigin fé.

Allir þessir punktar koma ekki frá mér heldur eru í aðgerðalista Íbúðalánasjóðs og komu fram á húsnæðisþingi í haust. Þetta eru allt ágætispunktar. Við þetta myndi ég vilja bæta að sveitarfélögin þurfa að fara að standa sína plikt í að tryggja félagslegar íbúðir.

Við getum náttúrlega verið ósammála um nákvæma útfærslu en það sér hver maður að flest af þessu verður leyst með nokkrum einföldum lagabreytingum og svo töluverðri fjárinnspýtingu. Það er hreinlega óskynsamlegt að gera það ekki. Píratar hafa lagt til að um 12 milljarðar verði lagðir fram á næsta ári, sem væri góð byrjun. Þetta myndi minnka töluvert eftirspurnina. Svo mætti lækka þá fjárhæð eftir því sem á líður og vandinn fer að leysast.

Ég kom inn á það í ræðu í fyrradag að það eru mörg vandamál við að kasta bara peningum í þetta vandamál og vona að það lagist. En það er algerlega ljóst að þetta neyðarástand kemur til með að versna ef ekki er brugðist strax við. 12 milljarðar eru mjög lítið gjald fyrir lausn á húsnæðisvanda þjóðarinnar. Við þurfum langtímalausnir, þurfum langtímahugmyndir. En þetta er alla vega byrjun.