148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

kyrrsetning, lögbann o.fl.

63. mál
[12:05]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hvatti þingheim til dáða í lok ræðu sinnar og að taka höndum saman við hana til að koma í veg fyrir að þessi staða sem hv. þingmaður rakti mjög vel í ræðu sinni gæti komið upp aftur. Ég lýsi mig reiðubúinn til þess samstarfs.

Ég get tekið undir þá ágætu lýsingu sem hv. þingmaður fór með varðandi umrætt mál og hef svo sem tjáð mig um það í ræðu og riti áður. Ég mun alltaf berjast fyrir frelsi fjölmiðla, ekki bara af því að það frelsi sé rétt heldur er ég sömu skoðunar og hv. þingmaður um að það sé beinlínis nauðsynlegt í lýðræðissamfélagi að fjölmiðlar hafi frelsi til að fjalla um mál. Það má ekki gerast að það frelsi sé heft á mjög misljósum forsendum. Sjálfur er ég slíkur talsmaður fjölmiðlafrelsis að það liggur við að ég vilji ekki hafa neinar hömlur á því sem fjalla megi um í fjölmiðlum. En eins og hv. þingmaður rakti ágætlega eru vissulega alþjóðlegar samþykktir og fleira sem þarf að gæta að hvað það varðar.

Þetta mál sem hv. þingmaður rakti hér er allt hið furðulegasta. Ég tek undir lýsingu hv. þingmanns. Það má ekki gerast í því lýðræðissamfélagi sem við viljum vera að svona mál komi upp.

Ég ætla samt að vera algerlega heiðarlegur hvað varðar efni frumvarpsins að ég er bara einfaldlega ekki búinn að kynna mér einstakar lagagreinar og í hvað er vísað hvað það varðar. Ég dreg ekki í efa að þær séu réttar og að þetta sé rétta leiðin, en ég lýsi mig mjög hlynntan frumvarpinu því að best væri að lögbann væri ekki sett á umfjöllun fjölmiðlis undir nokkrum kringumstæðum og það eiga að vera meiri hömlur á því að það sé gert en eru í núgildandi lögum. Ég mun því styðja framgang þessa frumvarps, kynna mér betur í hvaða greinar er vísað, en get tekið undir nánast allt sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði hér á undan. Þetta mál er gríðarlega mikilvægt og það má aldrei vera undir persónu neins komið hvernig búið er að umhverfi fjölmiðla í lýðræðissamfélagi.