148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

kyrrsetning, lögbann o.fl.

63. mál
[12:18]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta frumvarp og tilefni þess er allrar athygli vert. Ég held að við sem erum á Alþingi þurfum að búa vel um hnúta frelsis fjölmiðla og tjáningarfrelsis almennt. Ég ætla nú ekki að vera alveg jafn stóryrtur og fyrri hv. ræðumaður. Ég er ekki alveg viss um að þetta sé tóm della. Ég ætla þó að hafa fyrirvara á einstökum efnisatriðum og fyrirkomulagi, en ég held að það sé skylda okkar að búa svo um hnútana að fjölmiðlar geti starfað. Þeir verða auðvitað eins og aðrir, eins og bent er á, að starfa innan ramma laga, það liggur fyrir. En það er mjög mikilvægt að svigrúm þeirra sé mikið og að ef menn ætla sér að skerða það svigrúm þá sé það gert með vönduðum hætti. Eðli fjölmiðlunar er nú þannig, a.m.k. í samtímanum, að tíminn skiptir yfirleitt öllu máli, af því að fjölmiðillinn er að miðla upplýsingum í einhverju samhengi, það er nú bara þannig. Umfjöllun um tiltekin atriði, það skiptir máli hvenær sú umfjöllun fer fram. Umfjöllunin skiptir engu máli hálfum mánuði seinna vegna þess að hún er þá ekki „relevant“ í því samhengi sem er verið að setja hlutina fram. Það getur a.m.k. oft verið þannig, ég er ekki að segja að það sé algilt, langt í frá, en það er oft þannig. Ég held því að tíminn skipti þarna mjög miklu máli.

Auðvitað takast á hagsmunir, en þarna held ég að hagsmunir fjölmiðilsins og þar með almennings — fjölmiðill hefur skyldu til að miðla til almennings upplýsingum sem varða hann. Þeir eiga ekki að miðla upplýsingum um einkahagi fólks sem engum kemur við. En þegar stór málefni eiga í hlut er mjög vont ef það er hægt að tefja það. Þess vegna held ég að þegar þetta mál verður tekið áfram, hvernig sem það endar nákvæmlega, þá séu þessi sjónarmið alveg gríðarlega mikilvæg, að þessi takmörkun sé þá yfirveguð og taki eins stuttan tíma og hægt er, en ekki þannig að hægt sé að banna, nánast fyrirvaralaust, og svo líði tíminn, þess vegna langur tími, þar til það er prófað hvort það var réttmætt að takmarka tjáningarfrelsið með þessum hætti.