148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Vandinn sem við horfumst í augu við núna þessa dagana er að við höfum bara ekki tíma til að fara yfir frumvarpið. Þess vegna er svo sérstaklega mikilvægt á þessum tímapunkti að það komi vandað og yfirfarið frá hæstv. ráðherra. Það má alls ekki leika þann leik að vera að smygla einhverju inn hér í gegnum fjáraukalög af því að þingið hefur ekki tíma til að fara yfir það. Ég hef áhyggjur af því þegar ég lít yfir listann að það sé — ég leyfi mér bara að taka mér orðið fúsk í munn og það sé verið að skauta fram hjá lögum um opinber fjármál, fram hjá þeim girðingum sem settar voru þegar við unnum að þessum málum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort í frumvarpinu fyrir árið 2018 sé nægilegt fé í varasjóðum til þess að draga úr vægi fjáraukalaga sem munu væntanlega birtast á árinu 2018.