148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Okkur hefur gengið fjandi illa að ná tökum á ríkisfjármálunum. Nýjum lögum um fjármál var ætlað að hjálpa okkur við það verkefni, m.a. var settur sérstakur varasjóður inn í fjárlögin til að mæta óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum. Hér er margt sem ég kannast svo sem við úr fyrri störfum og get ekki skorast undan ábyrgð á. Hér er líka margt sem er bara mjög jákvætt, eins og hraðari niðurgreiðsla skulda. Það sparar vaxtagjöld í framtíðinni. En það breytir því ekki að við munum samt sem áður fara um það bil 3% fram úr fjárlögum, eins og þau voru samþykkt hér fyrir ári síðan. Það er nákvæmlega það sama og meðaltal okkar hefur verið alveg frá 2010. Það er engin framför þrátt fyrir að við eigum 9 milljarða varasjóð sem jafnframt er lagt til að sé hækkaður.

Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig stendur á að ekki er byrjað á að ráðstafa (Forseti hringir.) varasjóðnum áður en sótt er í viðbótarfjárheimildir Alþingis?