148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í raun kjarni málsins, maður þarf að skoða hvert og eitt tilvik. Ef við veltum t.d. fyrir okkur stóru málunum. Ég hef nefnt hér uppkaup á erlendum skuldabréfaútgáfum. Þá vitum við það. Það er einn þriðji af vandanum. Næststærst eru lyfjakaup, eins og ég rakti áðan. Við getum auðvitað rætt hvort við hefðum átt að setja 4 milljörðum minna í lyfjakaup. Það voru ákvarðanir sem leiddu af stöðu sem upp kom á árinu. Menn sögðu: Hér eru dýr lyf sem kallað er eftir til að bjarga lífum á árinu 2017. Ætlum við að neita fólki um aðgang að slíkum lyfjum á spítalanum? Niðurstaðan varð sú að gera það ekki. Það eru margir milljarðar sem við förum fram úr með því. Sömuleiðis varðandi hælisleitendur. Ég hef heyrt þeim sjónarmiðum fleygt í þinginu að það hafi verið fyrirséð og við hefðum átt að standa okkur betur í áætlanagerð vegna 2017. En þarna er 2 milljarða umframkostnaður sem fellur til, algerlega ófyrirsjáanlegur eða sem ekki var hægt að fyrirbyggja. Það er einn liðurinn. Svo gæti ég nefnt að lokum það sem tengist almannatryggingum. (Forseti hringir.) Hvernig átti að stoppa útgreiðslur úr almannatryggingum umfram það sem áætlað hafði verið? Ég kalla eftir skýringu á því.