148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við horfum t.d. á skuldabréfaútgáfuna er í sjálfu sér ekki verið að stofna til nýrra skuldbindinga heldur er verið að færa skuldbindingu til í tíma. Hins vegar stangast hér á lögboðnar skyldur, eins og t.d. til greiðslu almannatryggingagreiðslna og fjárheimildir. Það hefur ávallt verið litið svo á að hægt væri að sækja slíkar heimildir með fjáraukalagafrumvarpi. Mér er ekki kunnugt um neinar skuldbindingar aðrar. Ég vísa t.d. í það ef við tökum lönd og lóðir, þar er undir viljayfirlýsing o.s.frv.

Að öðru leyti eru þetta ófrávíkjanleg útgjöld, eins og t.d. vegna hælisleitenda. Þeir koma með flugvél og eru hér á okkar ábyrgð. Það verður ekki vikist undan því að greiða það.

Þetta er góð umræða sem hv. þingmaður setur hér af stað t.d. um eftirlit með fjármálum innan fjárlagaárs. Um það er töluvert fjallað í lögum um opinber fjármál, eins og maður sér af 34. greininni. Þetta byrjar hjá viðkomandi fagráðherra. Hann hefur skyldu til þess að bregðast við og gera fjármálaráðuneytinu grein fyrir því og síðan eftir atvikum ríkisstjórn og ráðherra fjármála gagnvart fjárlaganefndinni. Svo getur fjárlaganefnd óskað eftir upplýsingum frá hverjum og einum ráðherra. Skrifað er í lögin að fagráðherrarnir hafi skyldu til þess að koma málum aftur inn á fjárlagarammann sem þeir hafa.

Pólitíkin snýst síðan um það hversu hart við viljum ganga eftir því að menn haldi sig innan rammans, hvort skera eigi niður útgjöld vegna lyfja með því að taka lyf út af lyfjagreiðslulistanum eða ekki.