148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að hnykkja aðeins á ákvæðum í lögum um opinber fjármál þar sem stendur „tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum“. Það eru atriði sem ráðherra þarf að útskýra þegar hann leggur fram lögin; af hverju hver og ein aukafjárheimild uppfyllir öll þessi þrjú skilyrði, því að það er þetta „og“. Mér finnst rétt að það komi fram til að hnykkja á því sem sagt er um málið. Það er mjög erfitt í umræðunni að segja „ófyrirséð“ og svoleiðis, það eru alltaf öll þrjú skilyrðin.

Mig langar síðan að spyrja hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson um þá aukningu sem rætt hefur verið um, þessi 2,2%, ef við tökum frá vextina sem eru 8 milljarðar. Það er 2,2% hækkun á fjárlögum 2017. Nú hefur hv. þingmaður einmitt gagnrýnt núverandi fjárlög, þ.e. september til desember-fjárlög, fyrir litla hækkun, hækkun upp á 2%. Ráðherra gerir hins vegar mikið úr þeirri hækkun en gerir nú lítið úr 2,2% hækkuninni á fjárlögum 2017. Það er ráðherra gerir mikið úr 2% hækkun í september til desember-frumvarpinu en lítið úr 2,2% hækkun í fjáraukalögunum til fjárlaga 2017. Af því að hv. þingmaður vakti athygli á því að þetta væri bara 2% hækkun í september til desember-frumvarpinu þætti mér áhugavert að heyra álit hans á hvernig það passar saman.