148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Við ræðum fjáraukalög við ansi sérstakar kringumstæður. Tíminn er skammur til þess að kynna sér málið þar sem frumvarpinu var dreift í gær. Hér er vert að staldra við nokkur mál. Það er, eins og fram hefur komið í máli þingmanna í umræðum, ekkert smámál að leggja fram fjáraukalög með heildarútgjaldaaukningu upp á 25 milljarða kr. Vissulega eru góð mál á ferðinni, eins og aukin útgjöld vegna vaxtakostnaðar þar sem verið er að greiða upp óhagstæð lán, sem sparar okkur vaxtakostnað í framtíðinni, en þarna gætir líka verulegs aðhaldsleysis á ýmsum öðrum sviðum.

Í fyrsta lagi myndi ég vilja staldra við þann gríðarlega stutta tíma sem þingið fær til þess að ræða þessar miklu breytingar, sér í lagi í ljósi þess að fjáraukalögin bera þess merki að hér er verið að læða inn alls konar viðbótarútgjöldum ríkissjóðs á síðustu stundu sem eru alls ekki ófyrirséð, óhjákvæmileg né einskiptiskostnaður af neinu tagi, heldur eingöngu hefðbundið vandamál. Afkoma ríkissjóðs er góð og það er verið að nota hluta af því svigrúmi sem þar hefur skapast, þar sem afkoman var talsvert betri en gert var ráð fyrir í fjárlögum, til þess að auka útgjöldin enn frekar. Það er auðvitað mjög alvarlegt og gengur algjörlega þvert á þau vönduðu vinnubrögð sem reynt var að setja inn í ný lög um opinber fjármál. Það er eiginlega að verða nokkuð ljóst að lögin virka afskaplega lítið. Þau eru ekkert aðhald á þing né framkvæmdarvald í útgjaldaþenslu ríkissjóðs. Við þróumst með nákvæmlega sama hætti og fyrr.

Útgjaldaaukningin í fjáraukalögunum núna er algjörlega hin sama í hlutfalli og verið hefur undangengin sex ár þar á undan. Það er engin breyting. Það þýðir að við náum ekki neinum árangri í því að bæta vinnubrögð okkar. Það er mjög umhugsunarvert. Þess vegna er alvarlegt í raun þegar framkvæmdarvaldið leikur þann leik eina ferðina enn í skjóli góðrar afkomu að læða inn þægilegum útgjaldaauka hér og þar í því trausti að þingið hafi lítinn sem engan tíma til að setja sig inn í málin. Það verður að gera að lágmarki þá kröfu ef þingið á að geta lokið umræðu um fjáraukalögin að það sé miklu betri rökstuðningur sem fylgi útgjaldatillögunum, hvers vegna þetta sé óhjákvæmilegt nú, hvernig standi á því að þetta hafi ekki mátt sjá fyrir í fjárlagagerðinni sjálfri.

Mig langar að taka nokkur dæmi um það hvernig slík vinnubrögð hafa í gegnum tíðina hafa haft mjög slæm áhrif á verklag, bæði framkvæmdarvaldsins en ekki síður þingsins, í fjárlagavinnunni sjálfri. Horfum á þætti eins og hið augljósa, viðbótarútgjöld til þess að semja við bændur í ljósi brýns vanda sauðfjárbænda. Ég ætla ekki að gera lítið úr vanda sauðfjárbænda. Mér að vitandi er hins vegar ekki einu sinni búið að semja við bændur um hvað eigi að gera eða hvernig eigi að hátta ráðstöfun þessara fjármuna. Í mínum huga er alveg augljóst að hér er útgjaldaliður sem á heima í fjárlögum ársins 2018, mun koma til greiðslu á árinu 2018 ef að líkum lætur. Í það minnsta hefur sá fréttaflutningur farið fram hjá mér ef búið er að semja um ráðstöfun þessa fjár. Auðvitað er ekkert sem heitir óhjákvæmilegt í þeim þáttum. Þetta er samningsatriði milli ríkis og bænda og engin skuldbinding af hendi ríkisins sem ekki er hægt að komast hjá ef vilji stendur til eða skjóta yfir á næsta ár, ef vilji ríkisstjórnar stendur til þess að styrkja stöðu bænda.

Það eru fleiri þættir sem vekja athygli. Mig langar að nefna nokkra, til að mynda útgjöld til kirkjunnar. Þetta er a.m.k. í þriðja sinn í röð sem þau ófyrirséðu, óvæntu og óhjákvæmilegu viðbótarútgjöld til kirkjunnar koma í fjáraukalögum. Af hverju í ósköpunum er ekki tekið á því í fjárlögum? Horfum á þætti eins og útgjöld til útlendingamála. Það var algjörlega fyrirséð og í raun hunsað í meðhöndlun þingsins í fjárlögum ársins 2017 að kostnaður vegna þessa málaflokks yrði miklu meiri á árinu 2017 en ráð var fyrir gert. Um það var rætt við afgreiðslu fjárlaga og um það var rætt og fjárlaganefnd vöruð við á sínum tíma. Það var alveg ljóst að það var stóraukið innflæði hælisleitenda og algjörlega óraunhæft að gera ráð fyrir því að kostnaður ársins 2017 yrði minni en á árinu 2016, eins og komið hefur á daginn, hann reyndist umtalsvert meiri, en það var ekkert ófyrirséð í því. Einhverra hluta vegna kaus framkvæmdarvaldið að líta fram hjá augljósum óhjákvæmilegum kostnaðarauka á árinu 2017 við fjárlagagerðina sjálfa.

Það er einmitt það sem ég er að tala um þegar kemur að þeim óvönduðu vinnubrögðum sem svona þættir leiða af sér. Það er hægt að treysta á það að þingið muni afgreiða og redda málunum í fjárauka, eins og hefur alltaf verið gert og eru einmitt þau vinnubrögð sem verið er að reyna að breyta með lögum um opinber fjármál.

Það sama má segja varðandi t.d. þróun örorkunnar. Það var fyrirséð við afgreiðslu fjárlaga 2017 að það var mjög varlega áætlað varðandi mögulega aukningu eða nýgengi örorku miðað við þá þróun sem verið hefur á undanförnum árum. Það kemur á daginn að það reyndist allt of naumt skammtað og þingið núna þvingað til þess að bregðast aftur við í fjárauka.

Fleiri þætti mætti nefna, eins og útgjöld til vegagerðar. Sú útgjaldaaukning var rædd í síðustu ríkisstjórn. Ég stóð alltaf í þeirri meiningu að verið væri að ráðstafa því svigrúmi sem er í fjárlögunum, því útgjaldasvigrúmi eða varasjóði, til aukinnar áherslu í vegagerð, enda eru þetta ekki ófyrirséð eða óhjákvæmileg útgjöld. Þetta er ákvörðun um að gera meira en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum. Þar af leiðandi á þetta ekki heima í fjárauka. Þetta á heima í ráðstöfun varasjóðs fjárlaga ársins.

Það má velta fyrir sér því sama í sambandi við lyf. Í þeirri þenslu eða útgjaldaaukningu sem verið hefur í lyfjakostnaði á undanförnum árum var gert ráð fyrir því að lyfjakostnaður myndi lækka verulega á núlíðandi ári frá árinu 2016 í fjárlagagerðinni. Hér virðist vera veruleg vanáætlun af hálfu framkvæmdarvaldsins í skjóli þess að því verði reddað í fjárauka, enn og aftur.

Fleira mætti tína til og ýmsar fjárhæðir talsvert lægri en nefndar eru því að hér eru ekki fjárhæðir af lægri gerðinni, 3 milljarðar í lyfjakostnaði, 2,5 milljarðar í útlendingamálum, um 3 milljarðar í almannatryggingum og svo mætti áfram telja.

Ég endurtek að ég get heils hugar fallist á að 8 milljarða aukin vaxtagjöld ársins 2017 vegna snemmbúinna uppgreiðslna á skuldum ríkissjóðs séu óvænt og ófyrirséð, ég segi ekki óhjákvæmileg en æskileg útgjöld, af því að þetta sparar okkur fjármuni fram í tímann, og fullkomlega eðlilegt að slík útgjöld komi inn í fjáraukann. En ég held að fæst af því sem er tínt til annað standist þetta próf sem á að standast, að þetta sé ófyrirséð og óhjákvæmilegt. Þarna verðum við að fá miklu betri rökstuðning af hálfu framkvæmdarvaldsins, hvenær ákvarðanir um þessi útgjöld voru tekin, rökstuðninginn að baki því, hvernig reynt var að komast hjá því að þetta félli til á þessu ári ef þess var kostur, af hverju ekki var gripið til þess varasjóðs sem framkvæmdarvaldinu er úthlutað af hálfu þingsins til þess að mæta ófyrirséðum, óhjákvæmilegum útgjöldum á árinu. Það veitir framkvæmdarvaldinu ekkert aðhald ef það á að geta geymt varasjóðinn eins og sparibauk, líkt og kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra, fram á síðasta dag árs. Til hvers er þessi varasjóður ef honum er ekki ætlað að mæta óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum? Það mun ekkert breyta vinnubrögðunum ef framkvæmdarvaldið þarf aldrei að axla neina ábyrgð, aldrei að grípa til neinnar hagræðingar eða niðurskurðar á móti auknum útgjöldum, heldur getur alltaf haldið áfram sömu vinnubrögðum og hingað til, að þessu sé smellt í fjáraukann þegar vel gengur og ljóst er að stefnir í góðan afgang af ríkissjóði. Það hjálpar okkur ekki að ná tökum á stöðugri útgjaldaþenslu og stöðugri framúrkeyrslu úr bæði fjárlögum og svo aftur í ríkisreikningi né heitir á góðan árangur í þeim efnum.

Ég held þegar maður horfir til þessara vinnubragða, þegar maður horfir til þess hvernig er staðið að fjárlagavinnu nýrrar ríkisstjórnar þar sem öll markmið ríkisfjármálanna í hagstjórn eru þverbrotin, þá sé spurningin þessi: Til hvers var farið í endurskoðun á lögum um opinber fjármál ef stendur hvort eð ekkert til að vinna eftir þeim, ef stendur ekki til að vinna neitt í anda þess verklags sem þar er fyrirskrifað? Þar er einmitt verið að auka festu í ríkisfjármálunum, auka sjálfbærni í ríkisfjármálunum og tryggja að hin stöðuga framúrkeyrsla, hin stöðuga stjórnlausa útgjaldaaukning, mundi ég segja, á köflum á ríkissjóði sé beisluð. Það gerist ekki í þessu.

Það er alveg augljóst þegar kemur t.d. að útgjaldaþenslu fjárlaganna fyrir árið 2018 að þar er hagstjórnarsjónarmiðunum hikstalaust kastað fyrir borð um leið og það hentar ekki pólitískum meiri hluta á hverjum tíma, sem þýðir að lögin eru algjörlega marklaus. Það bætta verklag sem þar er fyrirskrifað er algjörlega marklaust, það er ekkert verið að vinna eftir því.

Þess vegna held ég að við verðum að taka mjög alvarlega þegar fjárauki sem þessi kemur inn með slíku lagi. Unnið er eftir gamla laginu, enn og aftur. Hið augljósa verklag sem hefði átt að vera er að við ákvarðanir stjórnvalda um aukin útgjöld, af því að margt af þessu eru ákvarðanir um aukin útgjöld, sé fyrst gengið á varasjóð, það sé ekki nema í þeim tilvikum þar sem er alveg augljóst að þetta er af þeirri stærðargráðu, svo ófyrirsjáanlegt, svo óhjákvæmilegt eða æskilegt, eins og í tilfelli uppgreiðslu skulda, að með slíka liði er farið í fjárauka. Annars verður aldrei neitt aðhald á framkvæmdarvaldinu. Það verður í rauninni áfram kerfisbundið hægt að vanáætla útgjöld sem framkvæmdarvaldið getur treyst á að þingið muni síðan redda í umræðum um fjárauka þegar þar að kemur.

Ég man að í 1. umr. um þetta breytta verklag var talað um og vonir stóðu til að fjáraukinn heyrði sögunni til, það myndi ekki þurfa að grípa til hans nema endrum og sinnum í neyðartilvikum, en hér sitjum við eða stöndum, alla vega sá sem hér stendur, og ræðum enn og aftur fjáraukalög af nákvæmlega sambærilegu umfangi og áður. Það er engin breyting.

Þess vegna held ég að við verðum að skoða gaumgæfilega, og þar er alvarlegt hversu naumur tími okkur er skammtaður, hvers eðlis þessi útgjöld eru, hversu óhjákvæmileg þau eru og hvenær ákvarðanir um þau voru teknar, því að alla vega að því marki sem ég þekki til finnst mér ýmislegt hafa bæst í frá þeim umræðum sem áttu sér stað í fyrri ríkisstjórn sem ég get ekki betur séð en séu af nákvæmlega sama toga og áður. Það er verið að nýta góða afkomu ríkissjóðs til þess að spýta í hér og þar, græja hitt og þetta á síðustu metrunum og smella því inn í fjáraukann þótt jafnvel sé ekki búið að semja um eða komin á nein varanleg skuldbinding. Það er ámælisvert og vonandi, og ég tek undir orð hv. þingmanns sem hér stóð á undan, heyrir það sögunni til. Vonandi verður þetta í síðasta sinn sem við stöndum frammi fyrir fjárauka af þessu tagi.