148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þann meginboðskap sem hv. þingmaður er með um það að við verðum að færa okkur yfir í breytt verklag. Ég er hins vegar ekki sammála því að þetta sé til vitnis um það að við höfum engu breytt. Ég vísa til þess að við höfum á árinu 2017 tekið frá marga milljarða í varasjóð, um 7 milljarða ef ég man rétt, sem hefur einungis að hluta til verið nýttur en hefði ella nýst á móti mörgum þessara mála hér. Meðal ástæðnanna fyrir því að hann hefur ekki verið nýttur er sú að við erum að reyna að auka gagnsæið í því hvað er verið að gera og fela þinginu að koma að málinu með því að koma með það hingað. Síðan hefur líka þótt varlegra að gera það þannig vegna þess að við höfum til að mynda staðið í kjaraviðræðum við 17 aðildarfélög BHM frá því í haust og höfum þurft að gera ráð fyrir því að mögulega næðist niðurstaða í þeim viðræðum með afturvirkni frá því í september. Sömuleiðis vorum við bara í dag að ganga frá launaskriðstryggingunni fyrir opinberu starfsmennina. Það er eitthvað sem við þurfum að horfa til varðandi það að nýta varasjóðinn í. Ég nefni þessi dæmi.

Síðan bendi ég líka á stóru liðina í frumvarpinu. Ef við skoðum stóru liðina þurfum við að spyrja okkur örfárra spurninga. Í fyrsta lagi: Hefðum við átt að sjá þetta fyrir? Það má segja það mögulega með hælisleitendur, ég get alveg tekið undir með mönnum þar. En á þetta þá ekki heima hér ef það var vanáætlað, eða hefðum við átt að skutla því inn á næsta ár? Ég er ekki viss um það. Í öðru lagi: Hefðum við átt að gera ráðherrunum að fara í ráðstafanir til þess að skera niður útgjöldin? Spyrjum þeirra spurning t.d. varðandi lyfin sem eru 4 milljarðar í þessu máli. Var krafan sú að fagráðherrann stöðvaði afhendingu lyfja, drægi úr afhendingu lyfja? Ef ekki, þá sitjum við uppi með slíkan kostnað hér.