148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:30]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég geti a.m.k. verið sammála hæstv. fjármálaráðherra að við höfum ekki fundið taktinn varðandi nýtingu varasjóðs. Það er kannski kjarni máls í þessu. Umgjörð laganna um opinber fjármál er einmitt ætlað að veita framkvæmdarvaldinu aðhald við útgjaldastjórn sína. Við verðum auðvitað að hafa í huga að hér er býsna stór rekstur undir. Þetta er 800 milljarða kr. rekstur. Á endanum ef við förum í gegnum þetta eins og hæstv. fjármálaráðherra þá getum við sagt við erum með 24 milljarða. Ef við tökum 8 milljarða til hliðar, við erum sammála um að þetta eigi heima í fjárauka, þar standa 16 milljarðar eftir. Þar á móti stendur 9 milljarða varasjóður, þá eru 7 milljarðar eftir.

Þá hlýtur maður að spyrja sig: Er til of mikils mælst af framkvæmdarvaldinu að geta stillt sig af varðandi þetta prósent sem út af stendur, ef það er rétt innan við prósent? Eigum við að spyrja t.d. úr því við erum komin fram úr varasjóðnum: Ætlum við þá að semja við bændur núna eða ætlum við að geyma það fram yfir áramót? Fórum við kannski aðeins of geyst í útgjaldaáætlunina í samgöngum, ættum við kannski aðeins að slá af þar? Svo mætti áfram telja. Það er auðvitað fjöldi liða í fjárlögunum sem eru ekki algjörlega óhjákvæmileg skuldbundin útgjöld heldur er hægt að fresta ef önnur útgjaldaáform reynast hærri. Það er auðvitað markmið laganna um opinber fjármál, líkt og fyrirtæki þurfa mjög gjarnan að fara í sínum eigin rekstri, heimili þurfa að gera í sínu heimilisbókhaldi, að grípa til aðhaldsaðgerða á móti þegar ljóst er að það er framúrkeyrsla á einhverjum öðrum sviðum. Það er auðvitað þangað sem við viljum komast.