148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

67. mál
[15:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Með frumvarpinu er horfið frá fyrra launaákvörðunarfyrirkomulagi þar sem ráðherra var falið að ákvarða grunnlaunaflokk og undirflokk starfa forstöðumanna ríkisstofnana sem og forsendur fyrir greiðslu viðbótarlauna og þess í stað lagt til að ráðherra eða sérstök starfseining á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra ákvarði föst laun fyrir dagvinnu í samræmi við grunnmat starfs viðkomandi forstöðumanns, ákvarði önnur laun er starfinu fylgja, ákvarði forsendur viðbótarlauna og ákvarði önnur starfskjör.

Breytingarnar samkvæmt frumvarpi þessu eru til komnar vegna álitamála sem hafa komið upp í tengslum við samspil launaákvarðana forstöðumanna og ákvörðunar eftirlauna til þeirra sem nýta sér svokallaða eftirmannsreglu í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Eftirlaun samkvæmt þeirri reglu ákvarðast af þeim föstu launum fyrir dagvinnu sem greidd eru fyrir viðkomandi starf og því mikilvægt að greint sé á milli við launaákvarðanir forstöðumanna hvað teljist til launa fyrir dagvinnu og hvað til launa vegna annars. Að óbreyttu myndu eftirlaun þessa hóps hækka um rúmar 38 millj. kr. á mánuði og hækka mat á lífeyrisskuldbindingum B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um 2.000 millj. kr. miðað við stöðuna í árslok 2016. Sú hækkun myndi að auki leiða til 0,27% hækkunar á vísitölu dagvinnulauna opinberra starfsmanna. Samtals áhrif til hækkunar á áföllnum lífeyrisskuldbindingum B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á verðlagi í árslok 2016 eru metin sem 4,7 milljarðar kr. eða sem nemur 0,84% af áföllnum lífeyrisskuldbindingum B-deildar sjóðsins.

Til að bregðast við þessu og koma í veg fyrir auknar lífeyrisskuldbindingar er því nauðsynlegt að breyta aftur 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og nú á þann veg að þar verði kveðið á um, með sambærilegum hætti og í lögum um kjararáð, að við launaákvörðun forstöðumanna verði greint á milli hvað teljist til fastra dagvinnulauna og hvað annarra launa.

Það er rétt að ítreka að framangreindar breytingar á 39. gr. a í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skerða ekki réttindi þeirra sem taka eftirlaun samkvæmt eftirmannsreglu heldur tryggja þeim áfram sama rétt og þeir nutu er kjararáð ákvarðaði laun þeirra eftirmanna. Af þessu leiðir að frumvarpið hefur ekki kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.

Við þetta má bæta því að þetta mál, eins og 39. gr. a sem hér hefur verið rædd, á sér allt uppruna í þeirri breytingu á lögum um kjararáð sem við ákváðum á Alþingi fyrir ekki löngu þar sem þessir hópar voru þá teknir undan kjararáði. Við festum þá í lög hvernig ætti að ákvarða þeirra réttindi í framtíðinni, kaup og kjör. Nú er sem sagt komið í ljós að við útfærslu á lagagreininni reka menn sig á að lög um þetta efni eins og við afgreiddum þau héðan kallast ekki vel á við eftirmannsreglu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í B-deild. Þannig má rekja þetta mál aftur til breytinga á lögum um kjararáð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.