148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þingmaðurinn lýsti því áðan að hann væri ekki mjög hrifinn af skattahækkunum. En er það ekki svo að þegar við höfum verið á leiðinni upp á topp hagsveiflunnar hafi skattar verið lækkaðir? Hins vegar var því ekki sinnt að byggja nægilega vel undir innviðina. Þess vegna erum við í þessum vanda núna. Við erum öll sammála því við þurfum að byggja upp innviðina. Við erum á toppi hagsveiflunnar. Er þá ekki nauðsynlegt til að halda hér stöðugleika að hækka einmitt skatta á móti? Er það ekki eitruð blanda að ætla sér að lækka skatta og auka útgjöld einmitt í þeirri stöðu sem við erum? Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur hann ekki áhyggjur ef gera á þær breytingar á skattstofni fjármagnstekjuskattsins sem talað er um — nefnt hefur verið að skattleggja bara raunávöxtun — verði það til þess að ríkið verði af þeim tekjum sem þó er gert ráð fyrir í frumvarpinu?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann: Er sú breyting ráðleg á neðra þrepi tekjuskattskerfisins á toppi hagsveiflunnar þegar verið er að gefa mikið í í útgjöldum? Ég vil biðja hv. þingmann að útskýra fyrir mér af hverju það er góð breyting og af hverju það muni ekki geta valdið tjóni og verið hagstjórnarmistök á þessum tímum.