148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Nú erum við komin í pólitík. (Gripið fram í.) Loksins, það er rétt. Ég tel mig geta fært rök fyrir því að við séum á toppi hagsveiflunnar, en samt sem áður sjáum við slakna á hagkerfinu, það er að verða til slaki á vinnumarkaði. Ég trúi því að það sé skynsamlegt einmitt á þessum tímapunkti að slaka á þegar kemur að skattinum, til þess að jafna út þá niðursveiflu sem er að verða til og að það muni til lengri tíma skila meiri tekjum í ríkissjóð. Ég bendi á að þegar t.d. tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður úr 50% í 18% fjórfölduðust tekjur ríkisins af tekjuskatti fyrirtækja, lögaðila. Þannig að ég er þeirrar skoðunar að hófsemd í skattheimtu leiði til meiri tekna ríkissjóðs og meiri hagsældar. Ég er þeirrar skoðunar. Ég tel mig hafa rök fyrir þeim skoðunum.

Varðandi skattstofn fjármagnstekjuskattsins og hugmyndir um að endurskoða hann tek ég undir áhyggjur þingmannsins að því leyti að ég held að það kunni að vera mjög varasamt að taka upp einhvers konar verðbreytingarfærslur inn í þennan skattstofn. Ég á eftir að sjá útfærsluna og sé ekki hvernig menn ætla að útfæra þetta. Skynsemin í fjármagnstekjuskattinum núna er þó sú að skattstofninn er skýr og skattprósentan liggur fyrir.