148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar satt best að segja að heyra aðeins meira eða fá skýrari svör um það hvers vegna aukin ríkisútgjöld eiga þá að vera varhugaverð núna. Ef við erum öll sammála um að við séum á toppi hagsveiflunnar ættum við að vera sammála um að aukin ríkisútgjöld væru af hinu góða. Ég ætla ekki að gera að orðum hv. þingmanns allt sem skoðanasystkini hans segja en mér hefur heyrst úr hægri áttinni að menn þar vilji alltaf lækka skatta og alltaf hafa hemil á útgjöldum ríkisins. Svo er mismunandi eftir því hvaða skatta við erum að tala um, eins og t.d. að hækka fjármagnstekjuskatt. Ég sé ekki fyrir mér, kannski einfeldningslegt, að það myndi hjálpa mikið til við að draga upp hagsveifluna að lækka fjármagnstekjuskattinn samanborið við t.d. að lækka tekjuskattinn. Ég held ekki. Ef við tökum fyrir tekjuskattinn myndi ég halda að besta leiðin til að nýta skattalækkanir til að ýmist milda niðursveiflu eða komast upp úr henni væri að hækka persónuafsláttinn. Ég myndi halda að það að hækka persónuafsláttinn væri fyrsta valið ef markmið skattalækkunarinnar er að gefa í í hagkerfinu, þ.e. ýmist að dempa niðursveiflu eða halda henni þar sem hún er. Það virðist vera fyrsti kosturinn en mér hefur fundist óþarfaáhersla á skatta eins og fjármagnstekjuskatt sem, eins og ég segi kannski einfeldningslega, ég tel ekki hafa sambærileg áhrif. Er ekki persónuafslátturinn það fyrsta?

Þetta eru þá í raun tvær spurningar: Hvers vegna er andstaða eða hik við aukin útgjöld? Og: Er ekki persónuafsláttur fyrsta tækið sem við ættum að nýta til að milda niðursveifluna?