148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Frú forseti. Ætli megi ekki líta á frumvarpið sem við ræðum hér sem fyrstu innborgun, fyrstu greiðslu Sjálfstæðisflokksins til Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fyrir afnot af fimm ráðherrastólum í fjögur ár. Að minnsta kosti verður ekki mikið vart við þá stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir, og var að maður taldi stofnaður um, í þessu frumvarpi. Það snýst nefnilega allt um hækkanir á sköttum og gjöldum. Ég hef ekki náð að telja hversu margar hækkanir þetta eru, það er erfitt að gera sér grein fyrir því, en þær eru býsna margar. Og ekki ein lækkun, ekki ein skattalækkun í því frumvarpi sem Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu hæstv. fjármálaráðherra hefur kynnt og við ræðum í dag.

Til viðbótar við þær hækkanir, sem ég mun fara stuttlega yfir hérna á eftir, vekur það sérstaka athygli að það er staðfest með frumvarpinu að ekki stendur til af hálfu hæstv. fjármálaráðherra að standa við þau fyrirheit sem hann gaf og undirritaði í janúar 2016 og voru liðir í því að hægt væri að ná kjarasamningum þá, fyrirheit um lækkun tryggingagjalds. En tryggingagjald er eins og menn vita í hæstu hæðum og hefur verið haldið þar þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr atvinnuleysi svo ekki sé meira sagt og núverandi hæstv. fjármálaráðherra sem var þá fjármálaráðherra líka á þeim tíma gaf formlegt fyrirheit um að gjaldið myndi lækka í skrefum á ákveðinn hátt, m.a. með lækkun sem átti að eiga sér stað í byrjun þessa árs, ársins 2017, sem ekki varð. Og nú sjáum við að það stendur ekki til að bæta úr því á nýju ári.

Áður en ég vík aftur að tryggingagjaldinu ætla ég að rekja stuttlega áform ríkisstjórnarinnar um hækkun hinna ýmsu gjalda og skatta.

Það vekur athygli að kolefnisgjald verður hækkað um 50%, herra forseti, 50% í einu skrefi og látið fylgja sögunni að það sé bara byrjunin, það muni hækka aftur og væntanlega enn aftur og einnig séu menn að skoða möguleika á því að finna upp fleiri nýja græna skatta og hækka þá grænu skatta sem þegar hafa verið fundnir upp. Þetta er auðvitað ótrúlega stórt stökk, 50% hækkun, svona hlutfallslega að minnsta kosti. En þá bendir ríkisstjórnin á að þetta sé nú ekki svo mikið vegna þess að síðasta ríkisstjórn hafi ætlað að hækka þetta um 100% og þetta sé eiginlega lækkun frá því sem kynnt var í fyrri útgáfu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018, sem er auðvitað röksemdafærsla sem heldur ekki vatni. Það sem eftir stendur er að hér er ríkisstjórn, hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, að kynna hækkun á einu tilteknu gjaldi um 50% milli ára. Það er náttúrlega bara toppurinn á ísjakanum, því að í frumvarpinu er talinn upp fjöldinn allur af gjöldum og sköttum sem stendur til að hækka. Það eru skráningargjöld, þau hækka. Eftirlitsgjöld hækka. Leyfisgjöld hækka. Útvarpsgjald hækkar. Loftslagsgjald hækkar. Olíugjald hækkar. Eldsneytisgjöld hækka. Kílómetragjald hækkar og auðvitað gjöld á áfengi og tóbak. Og alls konar hlutir aðrir. Allt hækkar þetta.

Þetta er sagt gert til að vega upp verðlagsáhrif, þ.e. hækkanir verðlagsvísitölu, á árinu 2017. Með því heldur áfram sú hringavitleysa sem við höfum horft upp á núna um áratugaskeið og við, að því er ég taldi, ætluðum að reyna að komast út úr, þar sem ríkisvaldið og hið opinbera er að taka þátt í því að viðhalda keðjuverkandi verðlagshækkunum, keðjuverkandi verðbólgu.

Á árinu 2014 var skipaður hópur um að finna leiðir til að sporna við sjálfvirkum vísitöluhækkunum eins og það hét. Þetta var liður í vinnu þáverandi ríkisstjórnar um afnám verðtryggingar. Þessi tiltekni liður var unninn í forsætisráðuneytinu en flestir liðirnir voru unnir í fjármálaráðuneytinu þar sem þeir eru enn í vinnslu, vonandi, ef þeir hafa ekki bara farið í pappírstætarann um leið og tækifæri gafst til. En þessi liður var alla vega kláraður og kynnt stefna og leiðir til að draga úr sjálfvirkum vísitöluhækkunum, komast út úr þessari keðjuverkandi verðbólgu. Liður í því, stór liður og mikilvægur, átti að felast í því að hið opinbera tæki ekki þátt í að viðhalda verðbólgunni heldur reyndi þvert á móti að halda aftur af hækkunum verðlags. Hér er algjörlega horfið frá því. Farið er í að hækka alla þessa krónutöluliði, hækka allt sem hægt er að hækka. Og hver verður afleiðingin? Afleiðingin verður auðvitað sú að verðlag hækkar og lán heimilanna, verðtryggð lán heimilanna hækka og það hefur svo margfeldisáhrif út í verðlag.

Ég skal nefna eitt dæmi, frú forseti. Eitt dæmi sem þegar er komið í ljós er hækkun á sérstöku gjaldi, flutningsgjaldi, sem lagt er á mjólkurbændur og kúabændur. Þeir greiða gjald fyrir söfnun mjólkurinnar. Það gjald hefur verið 4,70 kr. Nú er búið að tilkynna að það hækki í 5,10 kr., umtalsverð hækkun hlutfallslega. Hún er afleiðing af þessum hækkuðu gjöldum, einkum kolefnisgjaldinu og öðrum gjöldum á eldsneyti, svoleiðis að þarna skerðast kjör bænda. Ætli þeir þurfi þá ekki að hækka verðið á mjólkinni eða fá verðhækkun til mótvægis við þetta o.s.frv., frú forseti. Ríkið er hér að gefa tóninn á nýju ári. Allar þessar gjaldahækkanir munu að sjálfsögðu, eins og formaður nefndarinnar, hv. þm. Óli Björn Kárason, þekkir ágætlega bara velta áfram út í hagkerfið og hækka verð á hinum ýmsu vörum til viðbótar við þessar gjaldskrárhækkanir ríkisins.

Svo eru það skattahækkanirnar. Þar hefur mest verið rætt um hækkun fjármagnstekjuskatts, 10% hækkun þess skatts. Það er sagt gert, eins og það er orðað í stjórnarsáttmála, með leyfi forseta, til að „gera skattkerfið réttlátara óháð uppruna tekna.“

Merkingin væntanlega sú að skatthlutfall eigi að vera jafnara óháð því hvernig tekjurnar verða til. Þar virðist algjörlega hafa gleymst að reikna þetta dæmi til enda eða þá að þeir sem skrifuðu þennan stjórnarsáttmála hafi ekki alveg verið meðvitaðir um hvernig þessi skattur virkar. Því að þeir sem hafa lifibrauð af fjármagnstekjum á einu eða öðru formi greiða ekki bara fjármagnstekjuskatt af þeim tekjum, hann leggst ofan á aðra skatta. Það er enginn — og þetta var rætt sérstaklega í nefndinni og staðfest þar af gestum — sem hefur tekjur, hefur lifibrauð ef svo má segja af fjármagnstekjum á einu eða öðru formi sem greiðir bara 20% skatt.

Tökum sem dæmi þann sem rekur lítið fyrirtæki, er jafnvel bara einyrki með lítið fyrirtæki um sinn rekstur, iðnaðarmaður til dæmis. Viðkomandi reiðir sig hugsanlega á að reksturinn skili afgangi, skili hagnaði og þannig fái viðkomandi tekjur, sem sagt taki út tekjur í formi hagnaðar af rekstrinum. Hvað greiðir þá viðkomandi í skatt af þeim tekjum? Er það bara 20%? Nei, hann greiðir nefnilega fyrst 20% tekjuskatt fyrirtækis, svo leggst 20% fjármagnstekjuskatturinn ofan á það. Heildarskatthlutfallið er þá 36%, en eftir þessa boðuðu hækkun fer það upp í 37,6% sem viðkomandi greiðir í skatt af þessum tekjum. Vel að merkja — þetta er þá einstaklingur sem hefur tekið verulega áhættu og ekki á vísan að róa hjá honum að hann hafi hagnað af rekstrinum. Svoleiðis að þrátt fyrir áhættuna og þrátt fyrir að hafa komist í gegnum það og náð árangri þá yrði viðkomandi engu að síður að greiða 37,6% skatt.

Svo getum við tekið dæmi af eldri borgara sem lifir á ævisparnaði sem viðkomandi hefur sjálfur lagt fyrir. Hvert er þá endanlegt skatthlutfall, raunverulegt skatthlutfall? Það fer auðvitað eftir því hverjir vextirnir eru og hver verðbólgan er. Það þarf reyndar að vera með töluvert stóran höfuðstól til þess að geta lifað af vaxtatekjum.

En búum til dæmi. Segjum að eldri hjón hafi átt einbýlishús og náð að greiða af því á 40 árum og eignast það að fullu, litið á það sem lífeyrissjóð. Þau selja húsið og eiga eftir 100 milljónir. Gefum okkur að vextir séu 5% en verðbólga á sama tíma 3%. Þá eru raunverulegar tekjur, rauntekjur viðkomandi 2 milljónir á ári. En 20% fjármagnstekjuskatturinn er greiddur af 5 milljónum. Það er sem sagt ekki tekið tillit til þess að viðhalda þurfi höfuðstólnum. Eins mætti taka dæmi af fólki sem ætti enn húsið en leigði það út og hefði tekjurnar þannig. Af þessum 2 millj. kr. er 1 milljón greidd í skatt, af þessum 2 millj. kr. tekjum er 1 milljón greidd í skatt. Í þessu tilviki er í raun fjármagnstekjuskattur 50%. Eftir hækkun ríkisstjórnarinnar yrði hann 55% í þessu dæmi. Ef verðbólgan fer á skrið getur þetta allt saman breyst mjög hratt. Í raun getur fjármagnstekjuskattur við þessar aðstæður farið yfir 100%. Menn geta lent í því að greiða yfir 100% skatt.

Fjallað var um það í vinnu nefndarinnar hvernig þessi skattur hefði verið hugsaður í upphafi þegar hann var settur á. Við fengum áhugaverða yfirferð þar sem gerð var grein fyrir því og hvers vegna hefði verið ákveðið á sínum tíma að hafa skatthlutfallið ekki nema 10% ólíkt ýmsum öðrum löndum þar sem hlutfallið er hærra. Það er vegna þess að hér var ákveðið að fara þá leið að hafa einfalt fyrirkomulag og enga frádráttarliði ólíkt því sem er í þeim löndum þar sem skatthlutfallið er hærra. Kom á daginn að þetta lægra hlutfall skilaði hlutfallslega meiri tekjum til ríkisins en sams konar skattur í öðrum löndum þar sem hlutfallið er jafnvel miklu hærra, en alls konar flækjur, alls konar frádráttarliðir og flækjur sem gerðu þetta mun ómarkvissara. Þetta er í samræmi við það sem hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður nefndarinnar, lýsti sem skoðun sinni eða trú hér áðan að hófsemi í skattheimtu leiði til meiri tekna fyrir ríkissjóð. Þá veltir maður fyrir sér í hvaða stöðu hv. þingmaður er lentur nú, að vera að boða breytingar, tala um frumvarpið sem virðist ganga gegn því sem hann telur rétt og skynsamlegt. Ég hvet því þá þingmenn í meiri hlutanum sem eru sammála mati hv. þm. Óla Björns Kárasonar til að vinna að því með mér og fleirum milli umræðna að ná fram meiri skynsemi í þetta frumvarp, svoleiðis að tekjurnar fyrir ríkissjóð verði jafnvel meiri en ella og í öllu falli verði staða þeirra sem standa undir skattgreiðslunni, hvort sem það eru eldri borgarar eða einhverjir sem eru að reyna að búa til eitthvað nýtt, stofna fyrirtæki, verði sanngjarnari, svo við styðjumst við orðalag stjórnarsáttmála að viðkomandi greiði réttlátari, var orðið, skatt óháð uppruna teknanna, en lendi ekki í því að vera refsað fyrir annaðhvort sparsemi eða að fjárfesta og búa til eitthvað nýtt.

Maður veltir því nefnilega fyrir sér, það er eiginlega gegnumgangandi, það er svona meginniðurstaða þessara breytinga allra, að með þessu er ekki beinlínis verið að rétta hlut þeirra sem vilja byggja upp eitthvað nýtt, standa í því sem kallað er nýsköpun. Nógu oft notaði ríkisstjórnin orðið nýsköpun í stjórnarsáttmálanum. En það er nú eins og með margt annað sem var kynnt í þessum sáttmála og við myndun ríkisstjórnarinnar að eitt er sagt en svo er annað gert.

Sjáið bara dæmið um nýsköpunarmanninn hvernig hann fer út úr þeim breytingum sem hér er verið að boða. Viðkomandi leggur allt undir til að skapa eitthvað nýtt, starf fyrir sjálfan sig og kannski fleiri, greiðir sjálfum sér ekki meira út úr fyrirtækinu en reksturinn stendur undir, en lendir í því að skattur á tekjurnar hækkar og á sama tíma þarf viðkomandi að standa undir auknum framlögum í lífeyrissjóð en er svikinn um þá leiðréttingu sem lofað hafði verið á tryggingagjaldinu. Ekki bara það, heldur er tryggingagjald líka lagt ofan á viðbótargreiðslurnar, viðbótarlífeyrissjóðsgreiðslurnar. Viðkomandi lendir í raunhækkun á því sem hann þarf að greiða í tryggingagjald, sem er auðvitað eins og menn þekkja skattur á störf. Á sama tíma hækka öll gjöldin sem hann eða hún þarf að greiða, ekki bara gjöldin sem þarf að greiða ríkinu fyrir allt þetta sem ég rakti hér áðan, áritunargjöld og leyfisgjöld og eftirlitsgjöld og skráningargjöld og loftslagsgjöld og olíugjöld og kílómetragjöld og allt þetta, heldur líka verðlag, því að eins og ég gat um veltist þetta út í verðlagið. Á öllum vígstöðvum er verið að refsa fólkinu með þeim breytingum sem við ræðum hér.

Er það til þess fallið að ýta undir nýja verðmætasköpun, ýta undir það að hér spretti upp eitthvað nýtt og fjölbreytileg störf? Ég hefði haldið að það hefði einmitt þveröfug áhrif. Ég hef grun um að hv. nefndarformaður sé sammála mér um það.

Svo er það að lokum, frú forseti, sú hætta sem felst í því að skattahækkanirnar, rétt eins og gjaldahækkanirnar, veltist áfram út í hagkerfið og hafi þar neikvæðar afleiðingar. Þar er ég að tala um þá hættu sem er mjög raunveruleg og menn hafa rætt áður að hækkun fjármagnstekjuskattsins leiði til vaxtahækkunar. Vextir eru eins og menn segja stundum verð á peningum. Það er greitt ákveðið markaðsverð ef svo má segja. Vextir eru markaðsverð á peningum. Með þessu inngripi er verið að ýta undir hækkun þess verðs rétt eins og þegar skattar eru hækkaðir á öðrum vörum, t.d. matvöru, þá veltir það út í verðið. Væri ekki skynsamlegra, frú forseti, að vextir yrðu einfaldlega lægri? Ég held að vandinn liggi einmitt í því að vextir hafa verið allt of háir á Íslandi. Ef hér væru eðlilegir vextir þyrftu menn ekki að hafa áhyggjur af því að einhverjir væru með of miklar vaxtatekjur, en með þessu móti er ríkið í raun að ýta undir hækkun vaxta. Þá á væntanlega á móti að auka vaxtabætur og úr verður hin undarlegasta hringrás, sem hv. nefndarformaður getur hugsanlega útskýrt fyrir mér hvernig hann sér fyrir sér að muni virka ef hann kemur hingað upp í andsvar. Er hugmyndin sú að ef vextir hækka vegna hækkandi skatta á verð á fjármagni, hækki menn vaxtabætur á móti og þessi hringrás haldi áfram, ríkið taki tekjur af skatti sem ýtir undir vaxtahækkanir sem neyðir ríkið til að greiða hærri vaxtabætur? Það er eins og þær aðgerðir sem við ræðum hér hafi ekki verið hugsaðar til enda, frú forseti.

Eitt í viðbót áður en ég læt þessu lokið að sinni — frítekjumark lífeyrisþega sem fleiri hafa nefnt í umræðunni. Tillagan er sú að það miðist við 100 þús. kr. Við munum, eins og við boðuðum reyndar í kosningabaráttu, beita okkur fyrir því að þetta hámark verði afnumið og að atvinnutekjur skerði ekki lífeyrisgreiðslur. Mér heyrist við hafa bandamenn í því, m.a. í nefndinni og vonandi nógu marga á þinginu til að samstaða geti náðst um það.

Loks ítreka að það sem ég nefndi fyrr, ég vona að nefndarformaður og aðrir sem kunna að deila með mér áhyggjum af áhrifum þessara breytinga fáist til að endurmeta þær í þeirri vinnu sem fram undan er.