148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sannarlega til í þá vinnu með hv. þingmanni að reyna að reikna eða giska á, það verður aldrei annað en ágiskun, hina bestu prósentu fjármagnstekjuskatts og reyna það sama með aðra skatta.

Ég aðhyllist ekki þá frjálshyggju sem ég tel að hv. þingmaður aðhyllist í raun og felur í sér að alltaf sé betra að lækka skatta. En í sumum tilvikum er betra að lækka skatta til þess að ná þeim heildaráhrifum sem ég rakti hér áðan. Í þessu tilviki virðist mér ljóst að þessi hækkun sé til tjóns, skili ríkinu ekki endilega meira fjármagni, jafnvel minna, eins og var rakið ágætlega í vinnu nefndarinnar þar sem farið var yfir hvernig þessi skattur hefði verið hugsaður í upphafi. Hann sé á sama tíma ósanngjarn og letjandi, neikvæður hvati gagnvart greiðendum.

Talandi um hvata, því hv. þingmaður spurði sérstaklega um þá: Ég er svo sannarlega hlynntur jákvæðum hvötum í skattkerfinu. En ég er ekki eins hlynntur neikvæðum hvötum eins og hér eru kynntir. Ég tel að þeir virki ekki eins vel. Mér líst t.d. ágætlega á áform um að framlengja skattafslátt vegna umhverfisvænna bíla, fyrst við erum að tala um umhverfismálin í þessu samhengi. Það er jákvæður hvati. En að refsa fólki fyrir að keyra bíl sem mun hvort eð er þurfa að gera það áfram held ég að sé í rauninni ekkert annað en skattahækkun. Það eru auknar álögur á almenning, álögur sem bitna hlutfallslega verst á þeim sem hafa lægri tekjur því að þeir þurfa líka að komast leiðar sinnar og bitnar hlutfallslega verr á íbúum landsbyggðarinnar því að þeir þurfa að jafnaði að keyra um lengri veg. Slíkir neikvæðir hvatar eru að mínu mati til tjóns. Ég held að hv. þingmaður sé sammála mér um það eins og eitt og annað sem hann nefndi hér áðan.