148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir ræðu hans. Ein spurning sem kom upp undir ræðunni. Hv. þingmaður talaði um tillögu sína að hækkun fjármagnstekjuskatts úr 20 í 22% verði frestað vegna þess að, ef svo má segja, mótleggurinn er ekki tilbúinn, ekki er búið að útfæra þær tillögur sem tilkynnt hefur verið að komi fram varðandi breytingu á gjaldstofninum. Nú er hv. þingmaður fulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd. Var þetta rætt í nefndinni og hverjar voru viðtökur annarra nefndarmanna við þessari nálgun hv. þingmanns, ef hann lýsti þeim í nefndinni? Ég hef heyrt hv. þingmann tala áður með þessum hætti hér þingsal. Sjálfur lagði ég þetta til í umræðu um fjárlög. Mér leikur forvitni á að vita með hvaða hætti umræður hafa spunnist sérstaklega hvað varðar þetta atriði.