148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[19:30]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Vinna við gerð fjárlaga og tekjuöflunar fer fram við nokkuð sérstakar aðstæður annað árið í röð. Í fyrra var ríkisstjórn landsins starfsstjórn þar sem ekki hafði tekist að mynda ríkisstjórn og reiddi sig þess vegna ekki á neinn sérstakan meiri hluta á þingi. Þess í stað var reynt að vinna málið í þverpólitískri sátt í nefndinni og lappa upp á frumvarpið. Nú er aftur verið að samþykkja fjárlög í miklu kapphlaupi en að þessi sinni er frumvarpið lagt fram af meirihlutastjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Stjórnin hefur ekki haft mikinn tíma og það þarf að taka tillit til þess, en að sama skapi má segja að tími minni hlutans til að kalla eftir upplýsingum og kafa ofan í þær hafi líka verið naumur. Þetta eykur að sjálfsögðu hættu á mistökum.

Frumvarpið sem hér um ræðir er lagt fram samhliða fjárlögum og þó að ljóst sé að ríkisstjórnin muni í vor leggja fram nýja fjármálaáætlun gefa stjórnarsáttmálinn, fjárlögin og þetta frumvarp sterkar vísbendingar um við hverju má búast. Að mati Samfylkingarinnar er þörf á meiri fjárfestingu í heilbrigðis- og menntakerfi, samgöngum og víðar. Þrátt fyrir að viðleitni birtist reyndar til þess að styrkja þessa hluti nokkuð dugar hún skammt. Það sem Samfylkingunni finnst sérstaklega alvarlegt er sá algjöri skortur á viðleitni til að mæta þeim sem búa við kröppustu kjörin og fullkomin afneitun á mikilvægi þess að jafna kjör landsmanna. Ríkisstjórnin tekur lítið mark á nýjum og margítrekuðum niðurstöðum helstu stofnana og sérfræðinga heimsins um þau samfélög sem farnast best. Það eru þau samfélög sem búa við jöfnuð. Jöfnuður er með öðrum orðum drifkraftur hagvaxtar og framfara og jöfnuður einkennir einnig þau samfélög sem helst er horft til í heiminum.

Hér á landi búa allt of margir við verulegan skort. Bilið milli þeirra sem eiga mest og hinna sem eiga ekkert er allt of mikið. Það mun ekki gera neitt nema aukast. Það er ömurlegt, nú þegar svona vel árar. Ábata síðustu ára er ekki skipt jafnt. Í dag eiga t.d. 5% þjóðarinnar jafn miklar nettóeignir og hin 95%. Á milli áranna 2014 og 2015 jukust hreinar eignir ríkustu 5% um meira en 100 milljarða. Á sama tíma jukust hreinar eignir ríkasta 1% landsmanna um rúma 50 milljarða. Eignir ríkasta 0,1% jukust um 20 milljarða.

Um þessa skiptingu gæðanna og vaxandi þróun misskiptingar verður aldrei sátt. Því er brýnasta verkefni íslenskra stjórnvalda að ná tökum á þessari þróun, tryggja að auðnum sem verður til vegna harðduglegs fólks og tækniframfara verði skipt af sanngirni. Engin skref í þessa átt er að finna í nýjum stjórnarsáttmála, svo ekki sé talað um fjárlögin og þann bandorm sem hér er ræddur. Þess vegna eru vonbrigði okkar í Samfylkingunni svona mikil. Barnabætur hækka ekkert frá fyrra fjárlagafrumvarpi. Hið sama má segja um fæðingarorlofið. Það er engin aukning til vaxtabóta og þær dragast raunar saman um 2 milljarða milli ára.

Húsnæðisbætur til leigjenda eru óbreyttar, en þetta er viðkvæmur hópur sem hefur ekki notið þeirra gríðarlegu hækkana á húsnæðismarkaði sem verið hafa að undanförnu. Óbreyttri upphæð er varið til íbúðauppbyggingar þrátt fyrir að húsnæðisframboð á viðráðanlegu verði sé af skornum skammti og þetta sé eitt brýnasta úrlausnarefni stjórnvalda. Þetta ástand heldur mjög mörgu fólki, ekki síst ungu, í erfiðri stöðu.

Það er ekkert gert fyrir þá öldruðu sem geta ekki unnið, en 40% þeirra ná ekki framfærsluviðmiðum. Allt of margir í þeim hópi sem hér er nefndur og er vanræktur í nýja fjárlagafrumvarpinu búa sem sagt við óboðlegar aðstæður og lifa við eða á mörkum fátæktar.

Það væri auðvelt að fjármagna þessi brýnu verkefni með því að auka tekjur ríkisins á fordæmalausu hagvaxtarskeiði eins og Samfylkingin og raunar Vinstri græn boðuðu fyrir kosningar. Það væri skynsamlegt núna á toppi hagsveiflu ef menn ætla á annað borð að leggja í útgjaldaaukningu, sem allir flokkar eru sammála um að sé þarft, að fjármagna hana með innheimtu og tekjuöflun í stað þess að kroppa af afgangi. Það vekur býsna mikla furðu hversu lítil merki um stefnubreytingu eða sérstakar tillögur eru í þessa veru sem ætla mætti að kæmu til vegna áhrifa velferðarflokks innan ríkisstjórnarinnar. Mín skoðun er sú að innkoma Vinstri grænna í ríkisstjórn og áhrif þeirra á ríkisfjármálin séu bara allt of takmörkuð og undir væntingum.

Herra forseti. Í málflutningi og stefnuskrám Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna birtist líka gjörólík sýn á hlutverk skattkerfisins. Fyrrnefndi flokkurinn álítur hlutverk skattkerfisins einungis að standa fyrir nauðsynlegri tekjuöflun og talar gjarnan um einföldun þess á meðan hinn síðarnefndi hefur talað um þrepaskipt skattkerfi og vill að það sé einnig hugsað til verulegrar tekjujöfnunar. En það er ekki nóg að skrifa stefnu og gefa loforð fyrir kosningar, við framlagningu á slíku frumvarpi birtast nefnilega raunverulegar áherslur flokka. Þar kemur gleggst fram hvernig samfélag menn treysta sér til að byggja upp og hvernig þeir vilja búa að borgurunum, hver á að vera skipting eigna, tekna og með hvaða hætti byrðar eru lagðar á hvern og einn. Það þýðir ekkert að skýla sér ævinlega á bak við nauðsynlegar málamiðlanir ólíkra flokka. Vinstri græn og Framsókn völdu að starfa með Sjálfstæðisflokknum þrátt fyrir að annað væri í boði. Þessir flokkar verða einfaldlega að bera ábyrgð á því.

Það þýðir heldur ekkert að vísa til þess að í vor muni þetta allt lagast í nýrri fjármálaáætlun. Í fyrsta lagi þurfa þá veikir hópar að þreyja þorrann áfram allt árið 2018, auk þess sem boðuð er frekari eftirgjöf á tekjum í fjármálaáætluninni. Það kemur fram í stjórnarsáttmálanum. Það var fróðlegt hérna fyrir kvöldmat þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talaði mikið um skattahækkanir, skattahækkanir, skattahækkanir sem birtust í fjárlögum. Ég skildi ekki alveg hvað hann var að tala um vegna þess að nettóeftirgjöf tekna í fjárlögunum frá fjárlögum Benedikts Jóhannessonar er um 15 milljarðar og það á að gefa frekar eftir. Það er ekki trúverðugt að ganga endalaust á afgang ríkissjóðs. Seðlabankinn og fleiri aðilar hafa bent á þetta. Við getum ekki veðjað á eilífan efnahagsvöxt. Það er ekki skynsamlegt í mikilli hagsæld, auk þess sem reynslan sýnir okkur að það er ekki á vísan að róa í íslensku efnahagslífi.

Samfylkingin leggur áherslu á að breytingar verði gerðar á sköttum og gjöldum þannig að raunverulegt svigrúm myndist til að endurreisa heilbrigðiskerfið, menntakerfið, bæta samgöngukerfið og löggæslu, en ekki síst til þess að jafna kjörin og koma til móts við þá sem búa við erfiðustu kjörin. Samfylkingin og reyndar Vinstri græn líka töluðu mikið um þetta fyrir kosningar, töluðu um að efla félagslegan stöðugleika, viðhalda efnahagslegum stöðugleika og auka jöfnuð í samfélaginu. Það væri besta leiðin til að bæta lífskjör í landinu og stuðla að friði á vinnumarkaði. Það er ekki gert í þessum frumvörpum Reyndar eru óljós og ófjármögnuð loforð um að spýta í í velferðinni gefin í stjórnarsáttmálanum og það er notað sem skiptimynt til að róa vinnumarkaðinn. Í því sambandi var býsna áhugavert að hlusta á Sigurð Bessason, formann Eflingar, á morgunvakt Rásar 2 sl. mánudag. Hann fullyrðir að ríkisstjórnin sýni engan lit í velferðarmálum og getur sér þess einmitt til að það eigi að nota þessar áherslur sem skiptimynt inn í komandi kjarasamninga. Hann talar um að á hinum Norðurlöndunum myndu stjórnmálamenn finna til ábyrgðar gagnvart velferð íbúanna og ekki nota hana sem skiptimynt í kjarasamningum í þeim mæli sem hér hefur í rauninni tíðkast. Hann heldur áfram og segir að þetta séu gömul og gamaldags vinnubrögð hjá ríkisstjórn Katrínar og finnst skrýtið að VG skuli ekki vilja sýna vinstri áherslur strax í fjárlagafrumvarpinu heldur fallast frekar á að láta verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur draga velferðina út með töngum.

Vinstri græn gáfu sem sagt eftir í velferðarmálum. Í staðinn hafa þau vegið töluvert að umhverfisáherslum í stjórnarsáttmálanum. Þær eru margar góðar en glansmyndin lekur að mestu leyti af þegar frumvörpin eru skoðuð. Síðasta ríkisstjórn lagði raunverulega áherslu á græna skatta þótt ýmislegt hafi vantað upp á áherslur hennar varðandi jöfnuð og velferð, en nú er t.d. fallið frá áformum um tvöföldun kolefnisgjalds. Nú á að ganga helmingi skemmra en síðasta ríkisstjórn áformaði og það kostar væntanlega 2–3 milljarða. Í staðinn eru settar 20 milljónir í heildarvinnu vegna loftslagsmála. Mér finnst það einfaldlega ekki trúverðugt.

Hvati til að skipta yfir í vistvænar samgöngur minnkar sem þessu nemur og peningar sem fara í samneysluna minnka auðvitað líka, peningar sem hefði verið hægt að nota í umhverfismál, en ef það þarf ekki þá a.m.k. í mál sem tengd eru fátækasta fólkinu.

Við vitum að ef góður árangur á að nást í baráttunni gegn hlýnun jarðar verðum við að minnka útblástur og þá verðum við einfaldlega að bæta við grænum sköttum. Undir það hljóta flestir hér að geta tekið. Til að samstaða náist um græna skatta þarf að skoða þá í samhengi við aðrar skattbreytingar. Það verður að ganga þannig frá málum að þeir leggist ekki þungt á viðkvæma hópa og geri kannski að engu þær kjarabætur sem hópnum eru tryggðar með millifærslu að öðru leyti, t.d. í formi barnabóta eða húsnæðisstuðnings. Upp á það vantaði hjá síðustu ríkisstjórn.

Getuleysi þessarar ríkisstjórnar til að afla tekna ógnar þess vegna ekki bara félagslegum stöðugleika heldur líka efnahagslegum stöðugleika. Nú er gengið á boðaðan afgang og Seðlabankinn fjallar um þessar afleiðingar í riti sínu, Peningamálum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Minna aðhald í ríkisfjármálum mun því óhjákvæmilega hafa í för með sér að vextir og gengi krónunnar verða hærri en ella hefði verið.“

Skilaboðin verða sennilega ekki skýrari. Það er áfram kynt undir óæskilegum sveiflum sem munu koma eins og áður harðast niður á almenningi og jafnvel líka þekkingarfyrirtækjum sem starfa á alþjóðlegum markaði.

Ég get ekki fjallað um þetta frumvarp án þess að lýsa því aðeins, herra forseti, hversu skammarlegt fyrirkomulag barnabóta er í dag. Hjón sem eru bæði í vinnu og hafa tekjur við neðri fjórðungsmörk fá samanlagt 3.000 kr. á mánuði í barnabætur sem eiga að styðja við fjölskyldufólk þegar mikið reynir á fjárhagslega. Bætur til ungs fólks sem er að koma sér upp húsnæði og stíga jafnvel sín fyrstu skref á vinnumarkaði hafa breyst í fátæktarstyrk og þetta finnst mér þinginu til skammar.

Tekjuskerðingarmörk barnabóta sem hafa lítið hreyfst frá 2013 á sama tíma og launavísitala hefur hækkað um 40% hækka reyndar aðeins, en það held ég að séu um 20.000 kr. Það er bara ekki nógu mikið. Munum að á Íslandi búa núna meira en 6.000 börn við skort eða fátækt. Við verðum að gera eitthvað fyrir þennan hóp.

Þá finnst mér metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum líka ömurlegt. Fyrsta mál Samfylkingarinnar snýr að byggingu 5.000 almennra leiguíbúða á grundvelli laga þar um sem samstaða var um árið 2016. Það er bara eitt af því sem þarf að gera, það þarf að gera miklu meira en það, en þetta er verðugt fyrsta skref. Það ætti að fjármagna þessa uppbyggingu með greiðslu stofnstyrkja, eins og lög kveða á um, en fyrir kosningar var mikil umræða um alla þá peninga sem eru til í bankakerfinu, mikið af fjármagni sem væri nauðsynlegt að ríkið notaði af kostgæfni. Það væri hægt að nota þetta fé einmitt í einskiptisaðgerðir. Þar er uppbygging leigufyrirtækja án hagnaðarkröfu sennilega skynsamleg ráðstöfun. Vel heppnuð uppbygging mun nýtast í baráttunni gegn fátækt um ókomin ár og líka jafna sveiflu á íslenskum húsnæðismarkaði sem ekki er vanþörf á.

Síðan mætti væntanlega hugsa sér að nota aðrar einskiptisaðgerðir til að fjármagna samgönguáætlun, framkvæmdir úti á landi og jafnvel borgarlínu hér.

Einhverjir stjórnarliðar munu e.t.v. kalla þetta eintómt innstæðulaust raus þingmanns í minni hluta, þingmanns sem er bitur og varð fyrir vonbrigðum með að hann skyldi ekki vera í ríkisstjórn frá miðju til vinstri, stjórn sem tæki raunverulega á vaxandi misskiptingu og fátækt en einnig spillingu, leyndarhyggju og frændhygli eins og margir flokkar töluðu um. Og það eru vissulega vonbrigði. Eins og ég sagði áðan völdu Vinstri græn og Framsókn að starfa til hægri og leggjast flöt fyrir hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins. En þetta er varla alveg innstæðulaust raus því að langflestir hagsmunaaðilar sem hafa komið fyrir fjárlaganefnd hafa verið frekar neikvæðir eða mjög neikvæðir í garð frumvarpanna. Miðstjórn ASÍ sendi frá sér ályktun um fjárlagafrumvarpið í gær og ég ætla að leyfa mér að ljúka ræðunni með því að lesa stutt brot úr henni, með leyfi forseta:

„Bilið milli ríkra og fátækra eykst

Í rannsókn hagdeildar ASÍ á þróun skattbyrði launafólks síðastliðin 20 ár kemur skýrt fram að skattbyrði launafólks hefur aukist og þeim mun meira eftir því sem tekjurnar eru lægri. Það eru því mikil vonbrigði að ekki sé brugðist við þessari þróun í fjárlagafrumvarpinu heldur þvert á móti haldið áfram á sömu braut með því að lækka útgjöld til barnabóta, vaxtabóta og húsnæðisbóta. Tekjuójöfnuður mun halda áfram að aukast þar sem dregið er enn frekar úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins.“

Aðeins framar segir að fjárlagafrumvarpið dugi ekki til að leggja grunn að því samráði og samstarfi við aðila vinnumarkaðarins um efnahagslegan og félagslegan stöðugleika sem boðað var með kynningu stjórnarsáttmálans.

Herra forseti. Það er því óhætt að fullyrða að þessi ríkisstjórn fer bara ekkert sérstaklega vel af stað.