148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þær breytingartillögur sem eru undir 29. gr. ganga út á að afnema algerlega skerðingar varðandi atvinnutekjur og hækka … (Gripið fram í.) Já, en talað er um að hækka frítekjumarkið varðandi tekjur eins og lífeyri. Ég tel að forgangsraða þurfi fjármunum ríkisins með þeim hætti að það gagnist fyrst og fremst láglaunafólki. Ég tel að það þurfi að horfa til þess hvernig hægt sé að mæta því láglaunafólki sem er með lágar lífeyristekjur en ekki að smyrja því yfir allan hópinn; að nýta skattfé almennings og forgangsraða fjármunum ríkisins í þágu þeirra sem haft hafa lágar ævitekjur og lágan lífeyri en ekki að láta það eiga við um þá sem hafa háar tekjur. Við þurfum að útfæra það með þeim hætti að það gagnist lágtekjuhópum en ekki öllum hópum í þjóðfélaginu.