148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þessi tillaga er í samræmi við stefnu Miðflokksins, hún er líka réttlætistillaga og hvetjandi tillaga, æskileg tillaga á allan hátt. Það er rangt, það er beinlínis skaðlegt fyrir heildarhagsmuni samfélagsins að ríkið sé að hrekja þá út af vinnumarkaði sem gætu hugsað sér að vinna lengur, fólkið sem er með mestu reynsluna og þekkinguna. Ríkið ætlar að afsala samfélaginu þeirri verðmætasköpun sem þar gæti átt sér stað og skerða um leið lífsgæði þess fólks sem um ræðir. Það hefur lítið að segja fyrir tekjuhæstu hópana í hópi eldri borgara vegna þess að í langflestum tilvikum, nánast öllum tilvikum, eru þeir hópar með nægilega háar lífeyristekjur til að þær einar og sér nægi til að skerða greiðslur frá ríkinu.

Með þessari aðgerð er ekki hvað síst komið til móts við þá sem neyðast jafnvel til að vinna lengur vegna þess að þeir hafa ekki safnað nægum lífeyrisgreiðslum eða, að sjálfsögðu, vilja einfaldlega vinna lengur og nýta reynslu sína og þekkingu.