148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hvarflar það að ríkisstjórninni, stjórnarmeirihlutanum hér, að það að hækka bensínlítrann um nokkrar krónur í viðbót muni draga verulega úr akstri? Fólk mun áfram, rétt eins og þegar bensínhækkanir verða af öðrum ástæðum, halda áfram að fara leiðar sinnar á bílum sínum. Einu áhrifin af þessu verða þau að auka útgjöld heimilanna og hækka lánin þeirra, hækka verðtryggð lán. Að sjálfsögðu mun þetta leggjast þyngst á tekjulægstu heimilin því að þetta er ekki skattur sem tekur mið af tekjum, menn þurfa að komast leiðar sinnar hvort sem þeir eru tekjuháir eða lágir, og þetta mun leggjast þyngst á þá sem þurfa vegna vinnu sinnar eða búsetu að ferðast um langa leið, þar af leiðandi þyngra á landsbyggðina og landsbyggðarfólk en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta mun því ekki skila neinu öðru en, eins og svo margt annað í þessu frumvarpi, auknum álögum á almenning.