148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:41]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var talað um að ítarlega umræða hefði átt sér stað um fjármálaáætlun, þess vegna hefði það sparað dálítið í umræðunni um fjárlögin. Það er hins vegar ekki rétt, við gátum ekki átt ítarlega umræðu um fjármálaáætlunina af því að stefnumótunin sem þar átti að vera var mjög fátækleg. Öll umræðan snerist í rauninni um þær upplýsingar sem vantaði, sem við getum þá ekki borið saman við fjárlögin eins og við hefðum átt að gera. Við ættum að geta skoðað stefnurnar sem samþykktar voru í fjármálaáætluninni og borið saman hvernig það kemur út í fjárlögunum. En við höfum náttúrlega ekkert í höndunum. Við vitum ekki alveg hvar við erum stödd þar.

Er það rétt skilið hjá mér að í breytingartillögum meiri hlutans hafi 700 millj. kr. verið settar í heilbrigðisstofnanir úti á landi, heilsugæslur og Sjúkrahúsið á Akureyri? Ég ætla að spyrja hvort það sé rétt skilið hjá mér miðað við það sem fram kom í nefndinni í gær, að því sé einhvern veginn skipt upp á milli þeirra. Ráðherra ætlaði að koma og kynna skiptinguna betur, eftir því sem mér skilst, snemma á næsta ári. Fulltrúi frá Landspítala kom líka og útskýrði hvernig hann myndi verða rekinn í mínus, að það vantaði uppbyggingu á húsnæði sem verið væri að rífa vegna myglu og vegna skorts á tækjakaupum. En því er ekki mætt. Landspítali – háskólasjúkrahús er í rauninni látinn vera í breytingartillögum meiri hluta sem kemur niður á rekstri hans og í rauninni niður á heilbrigðisþjónustu fyrir okkur öll um allt land.

Einnig langar mig að fræðast um það sem fram fór í nefndinni í gær, umræður um að við myndum fá ráðuneytin aftur í upphafi næsta árs til að kynna betur stefnu þeirra í fjárlögunum af því að ekki náðist að gera það núna. Við fengum bara hálftíma til þess að fjalla um velferðarmálin. Framkvæmdastjórar stjórnmálaflokkanna fengu líka hálftíma til kynna tillögur sínar, sem voru margfalt smærri í sniðum.