148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefndi í framsöguræðu sinni að hér væri sleginn ákveðinn tónn um hvað koma skyldi. Ég bendi á að hér er einmitt sleginn falskur tónn. Nú erum við á hátindi uppsveiflunnar. Ef við getum ekki mætt öldruðum og öryrkjum og fátækum börnum og fjölskyldum á hátindi uppsveiflunnar, hvenær getum við þá gert það? Í niðursveiflunni? Er það reynsla þessara hópa? Af hverju getum við það ekki núna þegar tekjumöguleikarnir eru fyrir hendi?

Þingmaðurinn talar um að það sé flókið að breyta kolefnisgjöldunum og fá auknar tekjur. Við hefðum getað fengið 2 milljörðum meira með því að ýta á einn takka í morgun, með því að ýta á já og tryggja að kolefnisgjaldið hækkaði ekki nema um 50%. Það stóð til að hækka það um 100%. Flækjustigið var ekki meira en það að maður ýtti á einn takka og 2 milljarðar voru farnir frá ríkinu.

Hið sama má segja um fjármagnstekjuskattinn. Við ýttum á einn takka og ákváðum að fjármagnstekjuskatturinn yrði 22%. (Forseti hringir.) Af hverju ekki 25%? Auðlegðarskatturinn er ekki flókið framlag. Við vorum með auðlegðarskatt sem gaf 5–10 milljarða, allt eftir því hvernig áraði. Þetta er ekkert svo flókið, það sem skortir er pólitískur vilji þessara blessuðu stjórnarflokka.