148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:05]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, mig minnti líka að 17% væri hlutdeild einstaklinga í heilbrigðisþjónustu hér á landi. Hið opinbera sér um afganginn. Ég tek undir það sem hæstv. heilbrigðisráðherra segir, við þurfum að lækka það. Ég hef ekki nákvæmt hlutfall í huganum hvað það varðar. Í mínum huga skiptir aðalmáli að fólk geti leitað sér heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Við heyrum fréttir af því að þannig sé kerfið ekki í dag. Fólk veigrar sér við að sækja sér heilbrigðisþjónustu vegna efnahags. Við eigum ekki að hafa þannig kerfi. Við þurfum að ná til þessara hópa. Það var samkomulag um að þakið ætti ekki að vera 70 þúsund krónur, það ætti að vera 50 þúsund. Af hverju tökum við ekki það skref strax? Myndi það setja allt á hliðina að lækka þakið? Nei, að sjálfsögðu ekki. Og sömuleiðis varðandi Landspítalann. Hann kallar ekki eftir svo miklu í ljósi þeirrar stöðu sem ríkisfjármálin búa við í dag.

Hæstv. heilbrigðisráðherra talar um að þetta sé skref, en þetta er bara hænuskref, ekki einu sinni það. Þess vegna eru vonbrigðin svo mikið (Gripið fram í: Þetta er ósanngjarnt.) í röðum Samfylkingarinnar. Nei. (Gripið fram í: Jú.)