148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða yfirferð. Sum svörin við því sem hv. þingmaður veltir hér upp hef ég þegar gefið í andsvörum. Við erum í raun að bæta verulega í á þeim mælikvarða sem við horfum yfirleitt til, til að mynda sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, sem er sá mælikvarði sem notaður er á alþjóðlega vísu, þ.e. við bætum í frá 7,7% á yfirstandandi ári upp í 8,5 á næsta ári. Þegar ég segi við þá á ég við Alþingi, samþykki Alþingi framlagt frumvarp með breytingum.

Það er umtalsverð breyting á milli ára og kann að vera að það séu væntingar víða í kerfinu til þess að gera enn þá betur. Ég tel að allar beiðnir um meira fé séu vel rökstuddar. Ég held að það sé vel rökstutt hjá heilbrigðisstofnunum úti um land. Ég held að sé vel rökstutt hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri og Landspítalanum, hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, hjá öllum þeim stofnunum sem til heilbrigðisráðuneytisins heyra. En hins vegar tel ég að það skref sem verið er að stíga hér sé umtalsvert og til þess fallið að byggja upp sameiginlegan skilning á því að við viljum sækja fram. Það gerum við sameiginlega í ríkisfjármálaáætlun þar sem við erum líka að leggja mat á hvort þau útgjöld sem hið opinbera ráðstafar til heilbrigðisþjónustunnar nýtist öll í þágu starfseminnar í heild.

Til þess að við getum verið viss um það þurfum við að kortleggja þjónustuna og við þurfum að gera það í sameiningu með þessum aðilum. Í þá vinnu hyggst ég fara strax eftir áramót.