148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið er það skýr stefna þessarar ríkisstjórnar að bæta og styrkja menntakerfi landsins. Við erum að fara í umtalsverða styrkingu er varðar framhaldsskólastigið. Hv. þingmaður nefnir að við séum eitthvað feimin við að tala um breytingar og menn ætli ekki að nýta tækifærið, það er bara alls ekki rétt. En það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að umtalsverðar breytingar hafa verið að eiga sér stað með styttingu framhaldsskólastigsins. Þess vegna munum við fara í úttekt á því hvernig við getum nýtt það til að styrkja kerfið enn frekar.

Eitt af því sem við leggjum ríka áherslu á er að styrkja iðn- og verknám. Nú þegar erum við að leggja drög að því að styrkja til að mynda umgjörð er varðar það nám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fleiri stöðum. Það kemur til framkvæmda strax á næsta ári.

Að auki viljum við fara í heildarstefnumótun á því skólastigi og taka líka mið af því sem hefur verið að gerast annars staðar í löndunum í kringum okkur. Auðvitað er það svolítið undarlegt þegar við sjáum að útskrifaðir nemendur í verk- og starfsnámi í Noregi eru margfalt fleiri en á Íslandi. Þetta er eitt af því sem ég vil fara mun betur yfir og kanna hvernig við getum fengið fleiri í slíkt nám.