148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég myndi gjarnan vilja eiga færi á lengri samskiptum við hv. þingmann um mælikvarða í heilbrigðiskerfinu því að ég held að það sé afar mikilvægt að við séum nokkurn veginn samstiga í því hvaða mælikvarða við viljum leggja til grundvallar til þess að taka ákvarðanir um næstu skref. Það er góð ábending sem kemur fram í máli hv. þingmanns, að útgjöld úr ríkissjóði til kerfisins duga ekki ein og sér sem mælikvarði heldur eru mælikvarðarnir miklu fleiri og margþættari. Ég nefni til að mynda mælikvarða um gæði, um árangur, um starfsfólk og aðstæður þess og um mannauðsmál. Mönnunarmál eru kannski stærsti vandinn í íslenska heilbrigðiskerfinu akkúrat núna. Ég nefni líka stöðuna að því er varðar aðgengi að þjónustu. Það kemur inn á það sem hv. þingmaður talar um varðandi jafnræði að því er varðar búsetu.

Það sem er mér efst í huga akkúrat núna er það sem við höfum verið að horfa á, þ.e. þróunin í íslenska heilbrigðiskerfinu sem hefur aldrei verið tekin ein stór ákvörðun um. Það er sú staðreynd að það er að verða ákveðin gliðnun á milli opinbera kerfisins annars vegar og hins vegar eins og sjálfkrafa flæðis út úr ríkissjóði í tiltekna stóra þætti heilbrigðiskerfisins án þess að um það hafi beinlínis verið tekin ákvörðun. Það eru tilteknar minni ákvarðanir sem hafa leitt okkur í þær áttir.

Það sem liggur raunverulega til grundvallar þeirri breytingu sem við gerum núna, sem sumir hafa kallað óverulega en aðrir kallað allt of mikla, það fer eftir því í hvaða átt menn tala, er viljinn til þess að sýna á þau spil að við viljum styrkja innviði opinbera kerfisins. Í því felst bæði pólitísk yfirlýsing og afstaða til opinbera kerfisins.

Ég myndi gjarnan vilja heyra í hv. þingmanni hvað þann þátt varðar, ekki síst vegna þess úr hvaða átt hann kemur pólitískt séð, hvort við gætum ekki náð samstöðu um það hér á þinginu að snúa bökum saman í sókn fyrir opinbera heilbrigðiskerfið.