148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Þetta er algjört lykilatriði að við tökum ákvörðun á forsendum almannahagsmuna um það hvaða þjónustu við kaupum eftir atvikum og það sé í samræmi við heildarhagsmuni og ekki síst stefnumörkun í heilbrigðismálum til lengri framtíðar og samspil einstakra þátta kerfisins. Ég fagna því að við séum sammála um það því að ég tel, eins og ég hef áður komið að hér, að það sé löngu tímabært að við komum okkur saman um ákveðinn sameiginlegan grunn sem okkar góða heilbrigðiskerfi geti treyst og búið við til lengri framtíðar án þess að þurfa að sæta miklum kúvendingum í kjölfar kosninga hverju sinni.

Vegna þess að ég er nú í því skemmtiprógrammi að finna sameiginlega fleti á milli okkar, þeirrar sem hér stendur og hv. þingmanns, langar mig að spyrja hver afstaða hans sé til þess að freista þess í ríkari mæli en nú er að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga í kerfinu, þ.e. að við látum að jafnaði hrausta borga meira og að við hlífum þeim veiku við að greiða úr eigin vasa.