148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:44]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir þetta andsvar. Ég átta mig á því núna hvers vegna sá ágæti þingmaður Helgi Hrafn Gunnarsson er ekki í Sjálfstæðisflokknum; hann hefði ekki skilið ákveðinn kjarna í Sjálfstæðisflokknum og mér þykir það leitt. Hvert er hlutverk Sjálfstæðisflokksins? Ég átta mig alveg á að þingmaðurinn metur hlutverk flokksins mikils enda er það hlutverk flokksins í samfélagsumræðunni, og með framgöngu sinni í stjórnmálum, að leggja áherslu á að þeir sem skapa verðmæti forgangsraði nýtingu þeirra verðmæta og samhliða sé rekið sterkt og öflugt samfélag og samfélagsleg verkefni og samfélagsleg ábyrgð séu í hávegum höfð.

Við höfum sannarlega aukið útgjöld. Við höfum getað það vegna þess að þeir skattstofnar sem fyrir hafa verið hafa, í kjölfar aukinnar hagsældar þjóðarinnar, skilað meiri tekjum. En það á að sjálfsögðu ekki að vera sjálfstætt markmið að eyða öllum tekjum sem hagvöxtur og aukin umsvif í samfélaginu afla ríkissjóði. Það á líka að vera verkefni okkar að moka í hlöðurnar til mögru áranna og safna í sarpinn. Við eigum líka að stunda það aðhald. Hv. þingmaður spyr hvort hækka eigi skatta þegar aftur kreppir að, en þá byrjum við að sönnu alltaf á því að gera meira úr þeim fjármunum sem til eru og reyna að nýta þá betur — og það á við jafnt í samdrætti sem í hagvexti — eða að forgangsraða verkefnum áður en við grípum til þeirra úrræða að hækka skatta verulega.