148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:03]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er kostnaðarreiknað. Sumt höfum við fengið frá fjármálaráðuneytinu, annað höfum við reiknað sjálf. Við þær aðstæður sem við búum núna, við þenslu á toppi hagsveiflu, er tvennt sem hægt er að gera sem er ábyrgt, það er að fara ekki í nein ríkisútgjöld, auka ekki við reksturinn. Það er bara ekki í boði vegna þess að allir flokkar lofuðu nauðsynlegri innviðauppbyggingu í hluti sem eru að grotna niður í heilbrigðiskerfi, menntakerfi, hjá öldruðum, hjá öryrkjum o.s.frv. Hin leiðin er að standa við loforð sín en afla tekna til þess og þá þarf að fara í hækkun skatta og ná í tekjur einhvers staðar.

Ég ber bara virðingu fyrir þeim sem segja: Ég vil ekki fara þá leið. En þá bregðast þeir við með því að fara varlegar í ríkisútgjöld. Við ætlum ekki að sætta okkur við það að nú eigi að setjast í sófann, opna ísskápinn, tína allt sem til er úr honum og hirða ekkert um að ná í tekjur heldur láta það lenda á næstu ríkisstjórn.

Ég minni aftur á ummæli Seðlabankans sem segir að þessi óábyrga ríkisfjármálastefna muni leiða til hærri vaxta, muni leiða til meiri verðbólgu. Þetta er óábyrgt og hefði átt að duga Vinstri grænum til þess að segja: Nei, við treystum okkur ekki til að skrifa undir þennan stjórnarsáttmála ef við fáum ekki að fylgja því eftir í fjárlögum eins og við lofuðum fyrir kosningar.