148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við hefðum viljað gera meira ef við hefðum sest í ríkisstjórn. Við hefðum talið að leggja þyrfti út í meiri ríkisútgjöld, en við hefðum þá aflað tekna til þess m.a. með auðlegðarskatti, með því að leggja áherslu á að við fengjum meira út úr auðlindum okkar, með því að fá peninga af ferðaþjónustu og svo gætum við lengi haldið áfram.

Þeir 18 milljarðar sem við erum að leggja til hér í kvöld að verði til útgjaldaauka er nákvæmlega sama upphæð og ríkisstjórnin er að gefa eftir af skatttekjum sínum m.a. af ferðamönnum, með því að gefa eftir þá hækkun af kolefnisgjaldi sem síðasta ríkisstjórn lagði til, þannig að ef ríkisstjórnin hefði bara sleppt því að gefa eftir allar tekjurnar sem við erum að fá þá hefðum við getað framkvæmt þá hluti sem við erum að leggja til núna. Það er það sem við erum að benda á.

En eins og ég sagði í upphafi teljum við óábyrgt núna að ætla bara að ganga á afgang af ríkissjóði, sérstaklega þegar menn eru að leggja af stað í varanleg útgjöld. Halda menn að útgjöld til heilbrigðismála, framhaldsskóla, háskóla, sé eitthvað sem getur hætt árið 2019 eða 2020? Nei, þetta er komið til að vera. Þetta þarf að vera ár eftir ár. Og til þess þarf að afla varanlegra tekna. Við þekkjum íslenskt hagkerfi og hagsögu alveg nógu vel til að vita að við erum ekki alltaf á toppi hagsveiflunnar. Við erum svona eins og íslenskt öldurót, við förum í djúpa öldudali og upp á háa öldutoppa. Fyrir það fyrsta þurfum við náttúrlega að reyna að breyta því og sigla lygnari sjó. En á meðan við erum í þessu ástandi er óábyrgt að rífa bara úr frystikistunni.