148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Ég vil byrja á að segja að það er gaman að eiga þessi skoðanaskipti í dag. Þau eru afskaplega mismunandi, alveg eins og við var að búast og eðlilegt er. Ég segi alveg eins og er að margt myndi ég vilja hafa öðruvísi eins og maður vill gjarnan í lífinu, en ég er í sjálfu sér ágætlega sátt við það sem hér er lagt fram.

Ríkisstjórnin bætir 15 milljörðum í útgjöld ríkisins miðað við fjárlagafrumvarpið sjálft sem lagt var fram í september. Það getur því vart talist annað en töluverð breyting og töluverður útgjaldaauki. Auki þess bætir fjárlaganefnd þar til við. Á þessum tveimur vikum höfum við náð fram a.m.k. 1% á viku, af því að sumir tala mikið í prósentum.

Ég held að þessar viðbætur segi skýra sögu um forgangsröðun og -atriði nýrrar ríkisstjórnar, hvort sem það varðar heilbrigðismálin, samgöngurnar eða menntamálin. Ekki síst skýr viðbrögð um úrbætur í málefnum brotaþola kynferðisbrota þar sem við setjum, að frádregnu upplýsingakerfinu, í kringum 236 milljónir til þess að styðja við það verkefni. Ríkisstjórnin er bara rétt að byrja. Það er alveg ljóst að það eru miklar væntingar til ríkisstjórnarinnar en jafnframt var alltaf ljóst að aldrei yrði hægt að verða við öllu því sem vænst var í fyrsta fjárlagafrumvarpi, enda stóð það aldrei til. Hér er oft talað eins og það hafi átt að raungerast í fyrsta frumvarpi sem sagt var í kosningabaráttunni. Það er ekki raunhæft, ekki hjá okkur frekar en öðrum.

Þessir 15 milljarðar skipta fólkið í landinu máli hvort sem er í daglegu lífi eða öðru. Verið er að bæta heilbrigðisþjónustuna, sem skiptir okkur öll máli. Verið er að bæta í menntakerfið og það skiptir okkur öll líka máli. Barnafólk fær barnabætur og eldra fólk og öryrkjar njóta fyrst lægri greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu og svo mun allur almenningur njóta enn frekar á kjörtímabilinu.

Við erum líka að styrkja heilbrigðiskerfið á landsbyggðinni. Það eru okkar sameiginlegu verðmæti. Það eru fyrstu skrefin. Fjárlaganefndin bætti inn í á milli umræðna 400 milljónum til viðbótar varðandi heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni auk þess að setja 50 milljónir í Sjúkrahúsið á Akureyri. Ég held að ekki sé hægt að horfa fram hjá því í nýju fjárlögunum að þau sýna að við erum að veita viðspyrnu í mikilvægum málum sem við höfum svo sagt að við sýnum enn betur á í næstu fjármálaáætlun. Það er alveg ljóst að það var aldrei hægt að gera kröfu til þess, jafnvel þó að við hefðum haft lengri tíma, að uppfylla allar þær hugmyndir sem uppi voru í kosningabaráttunni enda held ég að það hafi aldrei staðið til hjá nokkrum.

Velferðaráherslurnar eru skýrar; 13 milljarðar í heilbrigðiskerfið frá síðustu fjárlögum, 8 milljarðar frá því sem talað hefur verið um og lagt var fram í fjárlagafrumvarpinu í haust. Það er ekki hægt að ganga út frá því að það frumvarp hefði verið samþykkt óbreytt, hvorki með útgjöldum né tekjum sem þar voru ætlaðar. Barnabætur hækka um milljarð frá síðasta fjárlagafrumvarpi. Þar er helst verið að tala um að tekjuviðmiðið breytist. Ég held að við séum þar að snúa af þeirri braut sem farin var, þ.e. bæturnar gangi ekki til þeirra sem vilja fá þær. Vil ég hafa viðmiðin hærri? Já, ég vildi vissulega vilja hafa þau hærri. En það eru auðvitað fleiri krónur í vasa barnafólks með þessu.

Hér er mikið talað um húsnæðismálin. Ég held að við þurfum að taka húsnæðisstuðning hins opinbera til gagngerrar endurskoðunar þannig að hann þjóni enn betur þeim hópum sem við viljum að hann þjóni, sérstaklega tekjulágum og ungu fólki. Það er ekki hægt að segja með sanni að það sem gert hefur verið undanfarin ár hafi gengið eftir. Þess vegna er mikilvægt að við skoðum þetta enn frekar í staðinn fyrir að vera með einhverjar skyndiákvarðanir hér og nú, við höfum jú talað mjög mikið um að við þurfum að breyta því. Við eigum ekki að taka skyndiákvarðanir um stóra skattapólitík á hverjum tíma, við eigum frekar að reyna að vinna það meira í sameiginlegri og þverpólitískri sátt þannig að það haldist á milli ríkisstjórna, en borið hefur á því að því miður er of miklu breytt við ríkisstjórnarskipti.

Þetta er auðvitað lítill tími til að tala um margt. Verið er að bæta inn í háskólastigið, eins og hér hefur komið fram. Framhaldsskólarnir fá líka styrkingu, sem skiptir miklu máli. Ég held að ekki megi gleyma því að það er mikilvægt að mæta báðum þessum skólastigum og tryggja að þau geti starfað. Þess vegna er ánægjulegt að heyra að rektor Háskóla Íslands hefur lýst sérstakri ánægju með frumvarpið. Svo þurfum við að muna eftir Háskólanum á Akureyri og gera enn betur þar. Það voru ánægjulegar fréttir sem komu úr ráðuneytinu þar sem m.a. er búið að taka fyrir málefni háskólans sem kom upp núna í desember er varða húsnæðismálin þar.

Mig langar aðeins að koma inn á eitt sem hér hefur ekkert verið komið inn á, það varðar sýslumenn og opinber störf um hinar dreifðu byggðir. Mér finnst að við þurfum að leggja áherslu á að styðja þar við og standa við þau lög sem sett voru þegar embættin voru aðgreind. Sama má segja um löggæsluna. Við þurfum að drífa í að klára löggæsluáætlunina og fara að vinna samkvæmt henni og bæta svo verulega í þar þegar hún liggur fyrir. Ég held að mikil þörf sé á því.

Í ferðaþjónustunni, sem hér hefur verið komið inn á, og varðandi kolefnaskattinn sem er lagður á til hálfs miðað við það sem var gert var ráð fyrir í síðasta frumvarpi sem lagt var fram í haust, vil ég gjarnan sjá sviðsmyndagreiningar. Ég vil reyndar sjá þær í svo miklu fleiru.

Varðandi samgöngumálin gerum við, meiri hluti fjárlaganefndar, tillögu til viðbótar við fjárlögin upp á 755 milljónir. Þar af eru 480 milljónir í veginn um Skriðdal, sem er mikið öryggisatriði og hefur verið baráttumál til fjölda ára. Í öðru lagi eru 200 milljónir til endurbóta á Grindavíkurvegi vegna öryggismála og svo er líka sett aukið fé vegna almenningssamgangna sem taka þarf til gagngerrar endurskoðunar núna strax um áramótin.

Við leggjum líka til að 150 milljónir fari til þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi og svo ekki síst að bæta náttúrustofum landsins, öllum átta, upp það sem gert var ráð fyrir að af þeim yrði skorið, sem ég tel afar mikilvægt því að þetta eru störf í hinum dreifðu byggðum, þar eru unnin verkefni sem annars yrðu kannski ekki unnin.

Við setjum líka fé í ýmis minni verkefni sem skipta hinar dreifðu byggðir afar miklu máli. Þar sem ég bý á svoleiðis stað finn ég hvað það getur haft mikil afleidd áhrif.

Við setjum líka 166 milljóna aukið framlag til heimilisuppbótar örorkulífeyrisþega sem kemur til vegna breyttrar útfærslu á hækkun bóta til þeirra frá 1. janúar á næsta ári. Þeir tekjulausu örorkulífeyrisþegar sem halda einir heimili fá 280 þúsund kr. á mánuði með uppbót á lífeyri vegna framfærslu. Hér er verið að reyna að koma til móts við að fleiri geti fengið aðstoð.

Að beiðni velferðarnefndar um hækkun á framlagi vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar lögðum við til aukið fé, alveg eins og nefndin óskaði eftir. Þar er gert ráð fyrir að hægt sé að fjölga samningum á næsta ári og einnig lögð áhersla á að þeir sem þurfa að vera í öndunarvélum séu í forgangi.

Virðulegi forseti. Ég tala svo hratt, ég er hálfmóð hérna. Það er svo margt sem ég vildi gjarnan koma að. En ég held að félagar mínir í meiri hlutanum hafi rakið ágætlega helstu efnahagslegu forsendur og er búið að fara vel yfir þær í dag þannig að ég ákvað að fara í fljótaskriftinni yfir málin sem eru þó stór og jafnvel stærst. Ég held að þessir milljarðar skipti máli til að jafna kjörin fyrir fólkið í landinu. Það eru ekki litlir fjármunir. Ég er sannfærð um að þessi fyrstu skref nýrrar ríkisstjórnar sýni að á komandi kjörtímabili munum við setja hagsmuni almennings og okkar sameiginlega rekna kerfi í forgang og styrkja samfélagið.