148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:29]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Þakka þingmanni fyrir, forseti. Já, þessu voru gerð mjög góð skil og væri kannski ágætt að hafa sérstaklega í breytingartillögunni líka, bara svona upp á skýringar að gera, væri svona þægilegra að hafa það á sama stað.

Það sem ég hef áhuga á að vita í kjölfarið á þessu, fyrst þetta var svona vel gert, er hvernig ákveðið hafi verið hvaða verkefni skyldu styrkt. Ég velti fyrir mér hvort það hafi verið vel gert líka.

Að auki myndi ég vilja bæta við athugasemd, en eins og ég sagði áðan er ýmislegt styrkt, sumt betur og sumt ekki alveg eins vel og allir myndu vilja, þá er tilfinnanleg vöntun á tveimur atriðum. Það er varðandi húsnæðismál, við vitum öll hvernig ástandið er á húsnæðismarkaðnum. Húsnæðisstuðningurinn, hann er bara ekki að finna. Og nýsköpun, sem er gríðarlega mikilvæg núna. Mikið var talað um fjórðu iðnbyltinguna í kosningabaráttunni og hversu mikilvæg menntun og nýsköpun er í framhaldi af því.