148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég kannast vel við þessi orð og vík mér ekki undan þeim. Við erum að styrkja grunnreksturinn. Við erum kannski ekki að styrkja hann eins og hv. þingmaður vill gera og leggur hér til en við erum að styrkja hann um 15 milljarða og svo erum við að bæta í í fjárlaganefnd. Ég vík mér ekki undan þessum orðum en ég tek ekki undir það þegar hér er sagt að þetta skipti ekki máli, þetta séu bara 2,2%. Hv. þingmaður leggur til 18 milljarða, við leggjum til 15, plús þær viðbætur sem við erum búin að leggja til þannig að ég hugsa að við séum nú farin að nálgast að mörgu leyti. Síðan er auðvitað spurningin hvernig við skiptum þessu.

Hér er ekki hægt að uppfylla allt á skömmum tíma. Ég held að það hefði heldur ekki gerst þó að ég og hv. þingmaður hefðum verið í ríkisstjórn því við fengum bara 29% samanlagt í kosningunum, því miður. Við hefðum líklega ekki getað aflað þeirra tekna eins og við hefðum viljað gera því að við hefðum ekki haft til þess stuðning meiri hluta, hvernig svo sem hann hefði verið samansettur. Því miður, segi ég enn og aftur því ég veit að við eigum sameiginleg baráttumál og við reynum að hjálpast að í að koma þeim áleiðis.