148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er á þingmanni að heyra að aðhaldsviðmiðin séu eins og þau eru, þægileg viðmið, en megi víkja þegar aðrir hagsmunir eru í húfi. En mig langar að spyrja hv. þingmann út í aðra þætti. Hér er talað um að endurskoðun bótakerfa standi fyrir dyrum. Það hjálpar fólki ekki á næsta ári þegar verið er að skerða verulega vaxtabótakerfið og barnabótakerfið. Hvernig samrýmist það stefnu flokks hv. þingmanns? Og eins varðandi kolefnisgjaldið sem flokkur hv. þingmanns hefur verið mjög fylgjandi, hann hefur talað fyrir verulegri hækkun þess en þegar í ríkisstjórn er komið tekur flokkurinn þátt í að lækka verulega þau áform sem fyrri ríkisstjórn hafði hugað. Þegar talað er um að hagsmunir almennings séu í fyrirrúmi er kannski ágætt að hafa í huga varðandi hið fyrrnefnda, bótakerfin, að það er alveg hægt að spara fjármuni á móti, t.d. með því að framlengja ekki ívilnanir fyrir bílaleigur til þess að fjármagna styrkingu í bótakerfinu. (Forseti hringir.) Hvernig samræmist það því að hagsmunir almennings séu settir í forgang?