148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Háæruverðugur forseti. Ég saknaði þess að forseti skyldi bregðast við ábendingu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar vegna þess að ég myndi gjarnan vilja hafa ráðherra til að svara fyrir þá stefnu sem við erum að ræða, ekki hvað síst fjármálaráðherrann sem ber auðvitað öðrum ráðherrum fremur ábyrgð á fjárlagafrumvarpinu.

Ég er ekki mjög sáttur við þetta frumvarp en það er áhugavert á ýmsan hátt. Það er áhugavert ekki hvað síst vegna þess að það gefur okkur innsýn í þessa ríkisstjórn, sem okkur var sagt að væri merkileg ríkisstjórn, merkileg tilraun í pólitík. Ég er reyndar ekki þeirrar skoðunar að þetta sé mjög merkileg ríkisstjórn eða merkileg tilraun heldur miklu frekar eðlileg og nánast fyrirsjáanleg afleiðing af niðurstöðu kosninganna þar sem kerfisflokkarnir þrír, flokkarnir sem mynda ríkisstjórnina, fóru allir illa út úr kosningunum, alla vega miðað við það sem þeir væntu. Og kannski eðlileg viðbrögð hjá þeim þegar hallar undan fæti að mynda bandalag um að reyna að standa vörð um það fyrirkomulag sem þeim leið vel í.

Fjárlagafrumvarpið er einmitt mjög fyrirsjáanleg afleiðing af slíku samstarfi. Þetta er frumvarp um að viðhalda óbreyttu kerfi. Frumvarp um að setja aukið fjármagn inn í óbreytt og á mörgum stöðum gallað kerfi fremur en frumvarp með einhverja framtíðarsýn, ég tala nú ekki um vilja til róttækra umbóta. Það fer ekki mikið fyrir slíku í frumvarpinu, herra forseti.

Lítum bara á hvernig flokkarnir koma út úr þessu hver fyrir sig, því að það gefur okkur líka ákveðna innsýn í þetta stjórnarsamstarf. Hér er ríkisstjórn með þátttöku Sjálfstæðisflokks, þar sem Sjálfstæðisflokkur fer með fjármálaráðuneytið, að kynna fjárlagafrumvarp þar sem eru engar skattalækkanir, engin einföldun skattkerfisins eða nokkurra hluta, heldur ýmsar hækkanir skatta og gjalda og auknar flækjur á öllum sviðum. Á sama tíma er gert ráð fyrir umtalsverðri útgjaldaaukningu sem þessi flokkur sem einu sinni bauð fram undir kjörorðinu „Báknið burt!“ er nú að leiða hér yfir þjóðina, þ.e. þetta frumvarp einkennist ekki á nokkurn hátt af því sem sá Sjálfstæðisflokkur sem bauð fram í kosningunum boðaði, ég tala nú ekki um Sjálfstæðisflokkinn í gegnum tíðina. Hér virðist birtast okkur algerlega nýr Sjálfstæðisflokkur og allt öðruvísi en sá sem við höfum kynnst áður hvað varðar megináherslur með ríkisútgjöld, skatta og slíkt.

Það hefur svo sem komið fram áður að Framsóknarflokkurinn fékk augljóslega ekki neitt í þessu fjárlagafrumvarpi. Landspítalinn á að vera við Hringbraut, Arion banki verður afhentur kröfuhöfum, ríkið leiðir verðhækkanir og verðbólgu á nýju ári með þeim gjaldahækkunum sem ég nefndi áðan. Svissneska leiðin í húsnæðismálum, hvenær hefur hún verið nefnd eftir kosningar? Maður er að átta sig á því núna að þegar Framsóknarmenn voru að tala um svissnesku leiðina voru þeir líklega bara að tala um að vera hlutlausir. Þeir ætluðu ekkert að láta til sín taka heldur sitja hjá. En þeir fá þrjú sæti til að sitja hjá í, í þessari ríkisstjórn.

Vinstri græn fá hins vegar aukin útgjöld. Það verður að segjast. Oft hefur mér fundist sjálfstætt markmið hjá Vinstri grænum að auka útgjöld. Þeim verður nokkuð ágengt í því. En það sem veldur mér vonbrigðum og reyndar talsverðum áhyggjum er hversu ómarkviss þessi útgjaldaaukning er. Þetta er eins og ég nefndi í upphafi veruleg aukning útgjalda inn í óbreytt kerfi. Það getur beinlínis verið skaðlegt. Eins og landlæknir hefur ítrekað bent á síðustu misseri getur það beinlínis verið skaðlegt að auka fjárveitingar í gallað kerfi. Hvergi er verið að takast á við gallana í þeim kerfum sem um ræðir. Heilbrigðiskerfið er augljóst dæmi. Í stað þess að takast á við það, og alveg ljóst er hvað þarf að gera þar. Miðflokkurinn var með útfærða stefnu um hvernig mætti bæta heilbrigðiskerfið en í staðinn fyrir þá vinnu er peningum dælt inn í kerfið á mjög ómarkvissan hátt og forgangsröðunin til þess fallin að viðhalda göllum kerfisins frekar en að draga úr þeim.

Þarna á ég við hluti eins og þá miklu samþjöppun sem hefur orðið í heilbrigðiskerfinu og heldur áfram með því frumvarpi sem hér hefur verið kynnt. Stöðugt er verið að þjappa kerfinu og þjónustunni meira og meira saman á einum stað, á Landspítalanum, auka álagið á þá stofnun, gera henni erfiðara fyrir að gegna því hlutverki sem henni var ætlað vegna þessa mikla álags en um leið er vannýtt fjárfesting og vannýtt tækifæri í heilbrigðisþjónustu víða um landið, ekki bara á landsbyggðinni heldur meira að segja í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. Í stað þess að reyna að snúa þessari þróun við er haldið áfram að bæta í Lansann.

Ég tala nú ekki um augljósasta merkið um að menn séu algerlega fastir í kerfishugsuninni í heilbrigðismálum sem er meðvituð ákvörðun um að halda áfram framkvæmdum við Hringbraut, þ.e. byggingu nýs Landspítala, án þess að skoða svo mikið sem eitt þeirra atriða sem bent hefur verið á á síðustu misserum og sýna fram á að það væri bæði hagkvæmara og fljótlegra að byggja nýjan spítala á nýjum stað. Nei, menn eru algerlega fastir í kerfishugsuninni og birtist þarna mjög glögglega í þeim áformum sem ganga það langt að menn láta sér ekki nægja að setja peninga í þetta verkefni til að reyna að koma í veg fyrir að horfið verði frá því að byggja við Hringbraut heldur er veitt sérstök heimild til að selja þær lóðir sem hafa verið taldar líklegastar til að henta undir nýjan Landspítala. Þessu erum við að sjálfsögðu algerlega mótfallin. Við sjáum að þetta hófst raunar með síðustu ríkisstjórn. Fjármálaráðherra þeirrar stjórnar tók upp á því óvænt að selja land Vífilsstaða, land sem var í eigu ríkisins, hafði verið í eigu Landspítalans og verið hugsað sem framtíðarbyggingarland Landspítalans. Nei, ráðherrann seldi þetta án heimildar. Ég vek athygli hæstv. forseta á því, þetta var gert án heimildar. Þingið hefur enn ekki skoðað þennan gjörning fyrrverandi fjármálaráðherra þó að ærið tilefni sé til.

En greinilega er einbeittur vilji, bæði þessarar ríkisstjórnar og þeirrar síðustu, að koma í veg fyrir að menn geri hið skynsamlega í þessu stóra máli.

Það mætti nefna fjölmörg önnur dæmi um hvernig ríkisstjórn er með fjárlagafrumvarpinu að festa í sessi gallað kerfi. Ég hef ekki tíma til að rekja það í stuttri ræðu. En ég vil þó bæta við og benda sérstaklega á hversu hæpnar forsendur þessa frumvarps eru að mörgu leyti. Tekjurnar byggjast að mjög verulegu leyti á áætlun um hagvöxt sem síður en svo er víst að gangi eftir eins og hlutirnir eru að þróast núna í hagkerfinu og tiltölulega lítil minnkun hagvaxtar mun gersamlega rústa forsendum frumvarpsins.

Það sama á við á útgjaldahliðinni. Rætt var í umræðum um fjárauka að ýmsir fyrirsjáanlegir liðir hefðu verið þar, liðir þar sem fyrirsjáanlegt var að kostnaður yrði meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum, og nefnt sem dæmi framlög til útlendingamála eða hælisleitenda, sem var augljóst þegar verið var að vinna að fjárlögum fyrir árið 2017 að yrðu miklu meiri en ráð var fyrir gert í frumvarpinu. Nú ætla menn að endurtaka sama leikinn með þennan lið og reyndar ýmsa liði aðra, þ.e. verið er að birta óraunhæfar áætlanir um útgjöld og líklega tekjur líka. Nema efnahagsþróun verði þeim mun jákvæðari á nýju ári.

Samhliða þessu öllu er gert ráð fyrir verulega aukinni miðstýringu í ríkisstjórn með 51% aukningu framlaga til forsætisráðuneytisins þar sem stórir útgjaldaliðir eru, stór hluti þessara nýju útgjalda er sérstök áætlun um að styrkja miðstýringarvald forsætisráðuneytisins til að passa upp á að ríkisstjórnin fylgi þeirri stefnu sem stjórnarflokkarnir voru látnir samþykkja í stjórnarsáttmála. Þetta er allt mikið áhyggjuefni, herra forseti, og ástæða til að ætla að hæstv. forsætisráðherra muni hafa aðstöðu til að framfylgja þessu öllu.