148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:31]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegi forseti. Fram til ársins 2016 voru fjárlög helsta birtingarmynd og átakaflötur um pólitík sitjandi ríkisstjórnar hverju sinni fyrir komandi ár. Þannig var fjármálum ríkisins stýrt ásamt fjáraukalögum og svokölluðum bandormi. Þeir tímar eiga nú að heyra sögunni til. Alþingi hefur ákveðið að breyta því verklagi.

Hér situr Alþingi að störfum og fjallar um fjármál ríkisins. Hvert er nú verklagið? Ég finn mig knúinn til að minna þingheim á, og þá aðallega hæstv. ríkisstjórn, hvernig lög um opinber fjármál kveða á um að stýra eigi fjármálum ríkisins. Markmið laganna er að stuðla að ábyrgri stjórn opinberra fjármála á grunni vandaðrar áætlunargerðar, gegnsæis og festu. Ég veit ekki betur en að um það fyrirkomulag ríki ágæt sátt á hv. Alþingi.

Það er nauðsynlegt að rifja upp að samkvæmt lögunum mynda þrjár áætlanir grunnstoðir fjárlagaferlis ríkisins og stefnumörkunar í opinberum fjármálum, því að það er eins og það hafi gleymst mörgum. Fjármálastefna, fjármálaáætlun og fjárlög. Fjármálastefna skal lögð fram í upphafi kjörtímabils og gildir í fimm ár og nær yfir almenn markmið og þróun fjármála ríkis og sveitarfélaga. Fjármálaáætlun dýpkar og útfærir nánar markmið fjármálastefnunnar og hvernig þeim verði náð frá ári til árs næstu fimm árin. Fjármálaáætlunin á að leggja grunn að forsendum hagstjórnar, þar á meðal tekjuöflun ríkisins, útgjalda og umfangi fjárfestinga. Og fjárlög eiga ávallt að byggja á forsendum fjármálaáætlunar og fela þau í sér endanlega ákvörðun um tekjur ríkisins og gjöld á næsta fjárlagaári.

Mér sýnist augljóst að ekki er rétt staðið að málum við afgreiðslu þessara fjárlaga. Hverjar eru staðreyndirnar? Í gildi er fjármálastefna, það er að vísu ekki fjármálastefna sitjandi ríkisstjórnar og það er vissulega bagalegt fyrir ríkisstjórnina en staðreynd engu að síður. Hér breytir engu þótt ríkisstjórnin hafi lagt fram þingsályktun um fjármálastefnu sína fyrir árin 2018–2022. Alþingi hefur ekki fjallað um hana og hún hefur ekki farið í það umsagnarferli m.a. hjá fjármálaráði sem lög gera ráð fyrir.

Væntanleg ný fjármálastefna getur ekki verið grundvöllur fjármála ríkisins næstu fimm árin. Það kann að vera súrt fyrir meiri hlutann að bíta í það epli, en það er grafalvarlegt ef Alþingi ætlar að sveigja frá þeirri framkvæmd sem ákveðið hefur verið að fylgja til að stuðla að gegnsæi og vandaðri fjárlagagerð. Hið sama gildir um fjármálaáætlun. Í gildi er fjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar. Það er eina fjármálaáætlunin sem er í gildi. Það er líka annað súrt epli sem bíta verður í hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Af þessu öllu leiðir að fjárlögin verða að rúmast innan gildandi fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Það er augljóst að svo er ekki.

Vissulega er rétt að það er snúið fyrir nýja ríkisstjórn og erfitt pólitískt séð. Það er líka rétt að ný ríkisstjórn tók ekki við fyrr en 30. nóvember. Það passar illa við þann hrynjanda sem lögin um opinber fjármál gera ráð fyrir. Það breytir því samt ekki að Alþingi ber að virða lög um opinber fjármál eins og önnur lög landsins.

Ég vil minna aftur á markmið laganna sem er að stuðla að ábyrgri stjórn opinberra fjármála á grunni vandaðrar áætlanagerðar, gegnsæis og festu. Vinnubrögðin nú ganga þvert gegn þessum markmiðum laganna. Þannig stuðlar ríkisstjórnin ekki bara að varhugaverðri fjárstjórn á toppi hagsveiflunnar heldur þrýstir hún þeim breytingum í gegn án þess að fylgja lögbundnum ferlum.

Herra forseti. Ríkisstjórnin starfar á grundvelli sáttmála um samstarf sitt, verkefni og verklag. Með leyfi forseta vil ég vitna í sáttmálann, en þar segir, m.a.:

„Stefna þarf að stöðugleika til lengri tíma og auka gagnsæi í athafnalífi og allri stjórnsýslu til að efla traust almennings á rekstri fyrirtækja, fjármálalífi, stjórnmálum og stofnunum samfélagsins.“

Síðar í sama sáttmála:

„Óvenjulegar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum. Það er vilji flokkanna sem nú taka þátt í samstarfi um ríkisstjórn og eflingu Alþingis að nálgast verkefnin með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu, ekki síst með því að styrkja Alþingi með markvissum hætti og auka áhrif þess.“

Herra forseti. Ég get tekið undir hvert orð sem ég vitnaði til. Meðal þeirra eru stöðugleiki til lengri tíma, gagnsæi, traust, breytt vinnubrögð, virðing gagnvart verkefnum og að nálgast verkefnin með nýjum hætti.

Mér er hins vegar ómögulegt að fá þessi orð til þess að ríma við þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð. Þau ríma hins vegar ágætlega við lögin um opinber fjármál.

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði í andsvari við hv. þm. Björn Leví hér fyrr við umræðurnar, með leyfi forseta:

„Við megum ekki umgangast lög um opinber fjármál eins og þar sé um náttúrulögmál að ræða.“

Í því samhengi myndi ég vilja biðja hæstv. forsætisráðherra annars vegar að greina nánar frá því í hvaða tilvikum hún telji rétt að Alþingi gangi gegn gildandi lögum og hins vegar hvort hún telji þessa afstöðu sína samræmast framangreindri tilvitnun í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar hennar. Telur ríkisstjórnin bestu leiðina að gagnsæi, trausti, bættum vinnubrögðum og stöðugleika til langs tíma vera að brjóta gildandi lög?

Það væri sannarlega í anda sáttmálans og laganna um opinber fjármál að sætta sig einfaldlega við að fara að núverandi fjármálastefnu og fjármálaáætlun þar til unnt er að beita vönduðum vinnubrögðum við að gera þær breytingar sem ríkisstjórnin vill ná fram í samræmi við Alþingi og þar til bærar stofnanir og umsagnaraðila svo sem fjármálaráðs. Það er ekki að ástæðulausu að lögin um opinber fjármál eru með fimm ára tímaramma undir við gerð fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Það er einmitt stöðugleiki til lengri tíma sem sáttmáli ríkisstjórnarinnar sjálfrar kallar eftir.

Hugsun laganna um opinber fjármál er að breytingar séu yfirvegaðar og eigi sér aðdraganda. Það er alsiða í löndum sem hafa tekið upp svipað fyrirkomulag að nýjar ríkisstjórnir verði í upphafi að sætta sig við ákvarðanir þeirra sem á undan sátu þar til hægt er að breyta stefnu og áherslum með réttum og vönduðum hætti. Það eru því vonbrigði að ný ríkisstjórn kjósi að sniðganga lögin um opinber fjármál og kasta fyrir róða vönduðum vinnubrögðum.

Síðasta ríkisstjórn skilaði góðu búi og talsverðu svigrúmi þannig að ríkisstjórnin getur byrjað að laga og bæta innan þess ramma eins og lög gera ráð fyrir, klárað síðan fjármálastefnu sína í upphafi árs og lagt fram sína fjármálaáætlun og síðan fjárlög að hausti. Með þessu getur ríkisstjórnin undirbyggt með vönduðum hætti allt hið góða sem hún vill gera.

Herra forseti. Að lokum vil ég ítreka að það eru vonbrigði að ríkisstjórn hinna nýju vinnubragða misstígi sig svo illa í upphafi göngu sinnar, sem ég er viss um að hún ætlar sér að láta endast í fjögur ár. Það lofar ekki góðu um að gangan verði greið, þrautalaus eða ánægjuleg.