148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:07]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla að hefja gagnrýni mína á velferðar- og heilbrigðishluta fjárlagafrumvarps með því að beina athygli þingsins og almennings að alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 16. desember 1966, undirritaður fyrir Íslands hönd hinn 30. desember 1968 og fullgiltur 22. ágúst 1979. Í inngangsorðum samningsins segir að þau ríki sem séu aðilar að samningnum hafi í huga að viðurkenning á meðfæddri göfgi mannsins og jöfnum, óaðskiljanlegum réttindum allra manna sé grundvöllur frelsis, réttlætis og friðar í heiminum. Í inngangsorðum viðurkenna aðildarríki hans að sú hugsjón að menn séu frjálsir, óttalausir og þurfi ekki að líða skort rætist því aðeins að sköpuð verði skilyrði til þess að allir geti notið efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda, jafnt sem borgaralegra og stjórnmálalegra. Með fullgildingu samningsins á Íslandi var ákveðnum efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum veitt vernd sem þau höfðu ekki notið áður. Var með fullgildingu samningsins þannig stigið stórt skref í sögu mannréttindaverndar hérlendis.

En nú þegar efnahagsmál þjóðarinnar eru í fullum blóma, hvernig stöndum við okkur í því verkefni að vernda þessi efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu réttindi fólks í landinu? Í samhengi við þessi réttindi þótti mér fróðlegt að lesa umsögn EAPN á Íslandi um fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar, en fyrir þá sem ekki þekkja til er EAPN skammstöfun fyrir European Anti Poverty Network. Þar koma fram góðar athugasemdir og mig langar, með leyfi forseta, að reifa aðeins þá umsögn.

„Öryrkjar, langveikir og atvinnulausir eru þeir sem líklegastir eru til að búa við fátækt samkvæmt mælingu á skorti á efnislegum gæðum. Árið 2015 bjuggu 23% þeirra sem skilgreina sig sem öryrkja við skort á efnislegum gæðum og 2,5% ellilífeyrisþega. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að bætur öryrkja munu dragast áfram aftur úr bótum aldraðra með 1,1 milljarða kr. aukningu til aldraðra vegna hækkunar frítekjumarks. Ekkert sambærilegt er að sjá til öryrkja. Hækkun framlaga skýrist af fjölgun öryrkja og lögbundinni verðlagshækkun bóta. Meðaltekjur ellilífeyrisþega voru fyrir væntanlegar breytingar rúmar 384 þús. kr. á mánuði á meðan meðaltekjur öryrkja voru tæpar 333 þús. kr. á mánuði, eða sem svarar mismun upp á 612 þús. kr. yfir árið.

Fleiri börn en fullorðnir búa við fátækt á Íslandi. Börn búa við fátækt vegna fátæktar fullorðinna. Þess vegna verða lausnir á vanda barna sem búa við fátækt að endurspegla þessa staðreynd. Hærri stuðningur við barnafjölskyldur hefur verið eitt af baráttumálum þeirra sem láta sig fátækt varða. ASÍ benti á við fjárlög ársins 2016 að skattbyrði þeirra sem lægstu tekjurnar hafa og einstæðra foreldra hefði aukist verulega frá 1998, m.a. vegna lækkandi barnabóta. Ástæðan væri að barnabætur hefðu ekki haldið í við þróun launa né verðlags, skerðingarhlutföll tekna hefðu aukist allra síðustu ár og frá og með tekjuárinu 2010 voru allar barnabætur tekjutengdar, líka fyrir 7 ára og yngri. Því hefur verið lögð áhersla á að snúa þessari þróun við, m.a. í tillögum Velferðarvaktarinnar gegn fátækt. Hækkun útgjalda til barnabóta um 900 millj. kr. munu ekki ná því markmiði.

Í húsnæðismálum er tryggt fjármagn til byggingar almennra íbúða, en húsnæðisvandinn kemur allra verst niður á þeim sem búa við fátækt. Mjög mikilvægt er að tryggja áframhaldandi fjárveitingu til uppbyggingar kerfisins, þannig að leigjendur geti búið við húsnæðisöryggi í vönduðu og hagkvæmu leiguhúsnæði reknu af hagnaðarlausum leigufélögum. Ekkert er talað um endurskoðun á grunnfjárhæðum húsnæðisbóta né breytingu á stuðlum vegna heimilismanna. Í alþjóðlegum samanburði á borð við OECD Better Life index og Social Progress index er það einna helst aðgengi að hagkvæmu húsnæði sem dregur Ísland niður þegar kemur að velferð.“

Það er rétt að hér á að fjármagna stofnframlög til byggingar 600 nýrra íbúða en þörfin hefur verið greind á bilinu 1.500–9.000 íbúðir. Til hvers er verið að fá sérfræðinga til að greina vanda ef það á svo bara að hunsa niðurstöðuna?

Svo kemur ekkert fram í fjárlagafrumvarpi um hækkun persónuafsláttar en sú aðgerð nýtist tekjulægri einstaklingum best. Samkvæmt greiningu ASÍ er ein meginástæða þess að tekjulægstu hóparnir hafa borið sífellt hærri skattbyrði að persónuafslátturinn hefur ekki fylgt launaþróun.

Eðlilegast væri að þessi samantekt kveikti á einhvers konar viðvörunarbjöllum hjá okkur þingmönnum. Það er eitthvað að klikka hjá okkur. Miðað við áherslur Vinstri grænna fyrir kosningar og öll síðustu ár hefði mátt búast við töluvert meiri framlögum í heilbrigðismál og í velferðarkerfið. Þetta ósamræmi orða og gjörða bendir til þess að enginn raunverulegur vilji sé til staðar til að bregðast við þessari þróun og langar mig þess vegna að spyrja hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra: Hvar eru skrefin í átt að því að uppræta fátækt á Íslandi? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra með þeim áherslum sem liggja fyrir í umræddu fjárlagafrumvarpi að standa vörð um þau efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu réttindi sem við erum skuldbundin samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum til að tryggja?

Snúum okkur þá að heilbrigðismálum. Það virðist vera að ekki eigi að fjármagna heilbrigðiskerfið til fulls núna. Ekki frekar en fyrri ár. Að skilja eftir í það minnsta 645 millj. kr. gat á rekstri Landspítalans, sé fjármagn til að gera nauðsynlegar lagfæringar á húsnæði og tryggja rekstur geðsviðs ekki einu sinni tekið með, er grafalvarlegur trúnaðarbrestur gagnvart þjóðinni. Brestur sem felur í sér áhættu á að fólk muni fá ranga greiningu eða ófullnægjandi meðferð vegna gífurlegs álags á heilbrigðiskerfið sem framkallar mannleg mistök, að sjúkir muni fá þjónustu seint þótt þeir þurfi hana strax, að biðlistar muni lengjast, að fleiri læknar, hjúkrunarfræðingar og aðrir fagmenntaðir heilbrigðisstarfsmenn muni gefast upp og flýja til annarra starfa og að fólk muni kannski deyja sem þarf ekki að deyja. Þetta kann að hljóma eins og dramatísk upptalning en þetta er reyndin. Gott fólk sem leggur nótt við dag til að tryggja heilbrigði Íslendinga er orðið langþreytt á að þurfa að vinna við kerfishrunsaðstæður. Algert lágmark er að núlla út stöðuna. Að skera meira niður er algerlega fráleitt.

Hvað, kæra ríkisstjórn, eruð þið eiginlega að pæla?

Það er ljóst að forgangsröðun almennings þegar kemur að fjárútlátum ríkissjóðs er til heilbrigðismála. Forgangsröðun Landspítalans er fyrst og fremst að reksturinn sé tryggður. Eftir það kemur húsnæði, þá sérstaklega geðdeild Landspítalans, en þar þarf að gera geðdeildina það sem kallast sjálfsvígshelda og uppfæra öryggisstaðla, þá sérstaklega eldvarnaúðakerfi. Og svo seinast eru tækjakaup. Það vantar 645 milljónir til að rekstur spítalans haldi sjó. 500 milljónir í geðdeild og 400 milljónir í tækjakaup. Það er ekki nóg að styrkja rekstur Landspítalans um einhverja handahófskennda summu heldur þarf að ganga úr skugga um að rekstrargrundvöllur sé að lágmarki tryggður. Fólkið með mestu og bestu þekkinguna á þörfum spítalans biður um þá lágmarksupphæð, sem er 645 milljónir.

Mig langar til að beina spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra: Af hverju í ósköpunum er heilbrigðisráðherra ekki að hlusta á það fólk?