148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:31]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú er það svo að mörgu af því sem ég hafði hugsað mér að ræða í þessari ræðu var svarað í andsvörum af hálfu hæstv. heilbrigðisráðherra. En það er engu að síður áhugavert að rekja ákveðna hluti í þessu frumvarpi

Fyrir ári síðan stóð ég hér og hélt eiginlega mína alvandræðalegustu ræðu allra tíma. Þetta er nánast upp á dag og einmitt undir nákvæmlega sama dagskrárlið, 2. umr. um frumvarp til fjárlaga. Ástæðan fyrir því að hún var svona vandræðaleg var að ég fékk þann svartapétur í minn hlut að standa hér og reifa málið eins lengi og ég gæti, því sem næst óundirbúinn, á meðan félagar mínir í Pírötum sátu niðri og sömdu við þáverandi heilbrigðisráðherra og þáverandi formann fjárlaganefndar um að tryggja Landspítalanum rekstrargrundvöll. Það tókst. Rekstrargrundvöllur Landspítalans var tryggður í eitt ár enn. Mikið er ég feginn að þurfa ekki að ganga í gegnum slíka ræðu aftur.

En hver veit nema ég þurfi þess samt. Fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, sagði eitt sinn, með leyfi forseta: Ekki segja mér hver gildin þín eru, sýndu mér fjárlögin þín og ég skal segja þér hver gildin þín eru. Þetta fjárlagafrumvarp er nefnilega svolítið þannig, það segir okkur svolítið um gildi stjórnarflokkanna. Það er málefnalegt sem hefur komið fram að það hefur verið afskaplega lítill tími til stefnu við að vinna fjárlagafrumvarpið. Maður getur samþykkt það að einhverju leyti. Það var bætt við í ýmsum málaflokkum og ýmislegt hefur verið bætt. Samt er svo margt sem hefði verið hægt að bæta töluvert meira ef maður byggir sinn skilning á því hvernig fjárlögin ættu að vera á þeim málflutningi sem flokkarnir hafa haft í frammi jafnvel bara á því ári sem ég er búinn að vera inni á þingi.

Við erum á þeim tímapunkti núna með hliðsjón af framlögðum breytingartillögum meiri hlutans sem munu að öllum líkindum ná fram að ganga að þetta fjárlagafrumvarp leiðir af sér 645 millj. kr. gat á rekstri Landspítalans plús 400 millj. kr. gat í tækjakaup og svo vantar 500 milljónir í viðbót svo að geðdeildin haldi velli.

Það er margt gott í fjárlagafrumvarpinu, sér í lagi hafa breytingar sem komið hafa fram gengið ansi langt til að tryggja rekstur heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni þótt ekki sé fullnægjandi fé varið til tækjakaupa þar. Nú fara 200 millj. kr. að mér skilst til viðbótar í tækjakaupapottinn, ef ég fer ekki rangt með. En bara Heilbrigðisstofnun Suðurlands þarf 107 millj. kr. í tækjakaup til að halda eðlilegri stöðu. Þá eru ótaldar allar hinar heilbrigðisstofnanirnar úti um allt land.

Gott og vel. Við vitum að fjármunir eru alltaf takmarkaðir. Það er ekki hægt að gera allt. Stundum þurfum við að skoða hvaða burði við höfum frekar en óskir. Ég skil það og tek alfarið undir það. En höfum í huga að gert er ráð fyrir 1,4% afgangi af vergri landsframleiðslu í ríkisrekstrinum á næsta ári. Það er tala sem hæstv. fjármálaráðherra, sem þá var hæstv. forsætisráðherra, hélt fram að gæti ekki undir neinum kringumstæðum talist ábyrg ef hún væri broti lægra en 1,6% af vergri landsframleiðslu á sínum tíma. Vissulega hefur verg landsframleiðsla aukist. En hún hefur ekki aukist það mikið og staða hagkerfisins hefur ekki breyst svo mikið að það nægi eitt og sér til að réttlæta breytingu um 0,2 prósentustig af vergri landsframleiðslu. Enda er þetta pólitísk ákvörðun. Algerlega pólitísk, ekki fræðileg. Þetta er tala sem einhver valdi, eftir því sem ég fæ best séð út frá algeru forsenduleysi, einhver sem var með einhverja skoðun sem byggir á óbilandi trú á nýklassískri hagfræði fremur en einhverri betri hugmyndafræði sem ekki er búið að afsanna margsinnis. Ég neita að trúa því að þessi tala, úr því að hún getur breyst úr 1,6% af vergri landsframleiðslu í 1,4% með pólitískri ákvörðun, geti ekki farið niður í 1,3% ef það er það sem þarf til að tryggja að heilbrigðiskerfið sé fullfjármagnað.

Hverju breytir það hvort við skilum 30 milljarða kr. afgangi í lok árs 2018 eða 29,5 milljarða kr. afgangi? Berum það saman og tökum þetta upp í 645 millj. kr. frekar en 500. Við gætum eytt 645 millj. kr. minna í að greiða niður skuldir ríkisins sem væri um 0,8% af höfuðstól þeirrar ríkisskuldar sem ber hæstu vextina í dag, þá er ég að tala um RIKB 19 0226. Ef þessar 645 millj. kr. væru borgaðar inn á þá skuld og allt annað stæði í stað, sem það mun auðvitað ekki gera, við erum í bullandi uppgangi og allt gengur mjög vel, myndi það spara okkur u.þ.b. 47 millj. kr. á ári í vaxtakostnað.

Ef við myndum eyða 645 millj. kr. þess í stað í Landspítalann opnast margir valkostir eftir því hvernig fjármununum væri eytt. Líklega myndu biðlistar síður lengjast. Það myndi þýða að færri sætu til að mynda heima hjá sér að bíða í sársauka eftir gervilið í mjöðm eða á hné sem heldur þeim ef til vill frá vinnumarkaði. Í október sl. höfðu 491 beðið lengur en þrjá mánuði eftir liðskiptaaðgerð á hné. Ef við gerum ráð fyrir að aðeins 30% þeirra sem bíða eftir slíkri aðgerð séu ófærir til vinnu vegna biðarinnar hafa minnst 70.000 vinnustundir tapast bara á þessari bið. Nú veit ég ekki hvort þessi 30% tala er rétt, ég vel að hafa hana mjög lága til að reyna að vera hóflegur. Ég hef engar forsendur fyrir henni. En allar hinar tölurnar passa.

Með þessu einu væri þjóðhagslegi ávinningurinn orðinn tvöfaldur á við það að borga inn á skuldina. Áhrifin á ríkissjóð væru nákvæmlega þau sömu og að borga inn á skuldina.

Það eru aðrar leiðir færar. Sjúkrahússrými eru afar dýr. Margir dveljast á sjúkrahúsum frekar en dvalarheimilum vegna plássleysis og manneklu. Lokanir á hjúkrunarheimilum á borð við Blesastaði og Kumbaravog bættu ekki úr alvarlegu ástandi sem var fyrir. Það voru mjög málefnalegar ástæður fyrir þeim lokunum en það er ekki hægt að láta eins og það hafi verið ófyrirsjáanlegt að þetta húsnæði hafi ekki verið í lagi, miðað við þann rekstur sem hefur verið á því. Auðvitað hefðu ný úrræði átt að vera tilbúin áður en til lokana kom en ég erfi það auðvitað ekki við nýja ríkisstjórn sem kom ekkert að því sem slík.

Svo fór sem fór. Þetta ástand er staðreynd. Spurningin er: Gætu 645 millj. kr. til viðbótar til Landspítalans eða í heilbrigðiskerfið almennt orðið til þess að draga úr þessum vanda og jafnvel skilað okkur þjóðhagslegum ábata? Ég vil meina að það sé tilfellið. Ávinningurinn af því að tryggja rekstrargrundvöll Landspítalans er langtum meiri en af því að skila örlítið meiri afgangi. Þetta er algerlega borðleggjandi. Við eigum í raun ekki einu sinni að þurfa að ræða þetta.

En einhverra hluta vegna erum við hér. [Hlátur í þingsal.] Ég væri til í að einbeita mér miklu frekar að nýsköpun, atvinnumálum eða umhverfisvernd eða einhverju. En við erum á þessu augnabliki ekki með fullkomlega fjármagnað heilbrigðiskerfi. Ég skil og tek undir það sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði í andsvörum áðan en þarf samt að skilja betur af hverju það er ekki hægt að verja 0,1 prósentustigi í viðbót af vergri landsframleiðslu í betri verkefni. Ætlum við virkilega að láta 645 millj. kr. standa milli árangurs og uppgjafar, að vissu leyti, í fjárlögum sem hljóða upp á 800 milljarða kr.?

Ég vona að ég þurfi ekki að halda fleiri vandræðalegar ræður milli jóla og áramóta með því að við getum fundið einhverja farsæla lausn á þessu núna. En til að ljúka þessu, þar sem tími minn er ansi naumur, vil ég minna á fleiri atriði sem hv. þm. Halldóra Mogensen rakti í ræðu sinni. Helsta atriðið eru þessar 600 íbúðir sem er verið að fjármagna með auknum stofnframlögum. Ég skil ekki af hverju þær geta ekki verið í það minnsta 1.500 sem er lægsta matið sem hefur komið fram. Matið er 1.500–9.000 sem við þurfum. (Forseti hringir.) Af hverju gerum við þetta ekki? Svo er samgönguáætlun ekki fullfjármögnuð.