148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:48]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta. Það er allt svo öfugsnúið þegar ráðherrar veita okkur andsvör, en ég þakka engu að síður fyrir gott samtal. Ég er algerlega sammála. Við þurfum góða heilbrigðisstefnu fyrir landið í heild til framtíðar. Ég get ekki beðið eftir að þeirri stefnumótun verði lokið. Það er mjög margt sem við þurfum að huga að. Svo ég tali aðeins meira um Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem er önnur tveggja heilbrigðisstofnana í mínu kjördæmi og ég hef reynt að vera vel inni í málum hennar, þá hafa skilaboðin verið misvísandi. Annars vegar eru skilaboðin: Já, það á að reka bráðamóttöku. Hins vegar hafa peningarnir ekki alveg fylgt. Ef bráðamóttökuþjónusta myndi hætta á Selfossi kæmu sex þúsund tilfelli í viðbót á ári inn á Landspítalann. Það held ég að myndi kosta samfélagið í heild ógrynni af peningum. Við þurfum að reyna að tryggja þetta til framtíðar.

En að öðru leyti er þetta er bara mjög einfalt og ég tek undir með hæstv. heilbrigðisráðherra: Við þurfum að laga þetta allt saman. Það tekur tíma. Ég skil að þrjár vikur eru ekki langur tími til að laga alla heimsins hluti en við reynum bara að vinna saman í þessu og lögum þessar holur. Þær eru margar en við getum lagað þær.